Joe Gomez, leikmaður Liverpool og enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, undirgekkst í dag aðgerð vegna hnémeiðslanna sem hann varð fyrir æfingu með enska landsliðinu í gær.

Gomez varð ekki fyrir neinum meiðslum á liðbandi sínu en hins vegar var skemmd í sin í hnénu löguð í aðgerðinni í dag.

Liverpool sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem sagt var að aðgerðin hefði gengið vel. Enginn tímarammi hafi verið settur á endurkomu miðvarðarsins. Vonast væri hins vegar til þess að hann gæti spilað meira á yfirstandandi keppnistímabili.

Gomez hefur áður orðið fyrir hnémeiðslum en hann sleit krossband árið 2015. Þá varð hann fyrir slæmum liðbandameiðslum í ökkla árið 2018.

Auk Gomez eru Virgil van Dijk, Fabinho, Trent Alexander-Arnold, Thiago Alcantara og Alex Oxlade-Chamberlain á meiðslalistanum hjá Liverpool. Stutt er hins vegar í að Fabinho og Thiago verði klárir í slaginn á nýjan leik.

Joël Matip hefur svo reglulega verið að glíma við meiðsli undanfarin misseri en Kamerúninn hefur einungis byrjað þrjá deildarleiki síðustu 13 mánuðina. Því er líklegt að Rhys Williams og Nathaniel Phillips muni halda áfram að fá tækifæri í komandi leikjum Liverpool.