Joe Gomez, miðvörður Liverpool og enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, varð fyrir hnémeiðslum á æfingu enska landsliðsins í dag en óttast er að meiðslin geti haldið honum lengi utan vallar.

Gomez hefur myndað miðvarðarpar með Virgil van Dijk hjá Liverpool síðustu mánuðina en hollenski varnarmaðurinn er i endurhæfingu eftir að hafa farið í aðgerð vegna slits á krossbandi fyrr í þessum mánuði.

Þá er Fabinho sem hefur leyst af í vörn Liverpool tognaður aftan í læri og Trent Alexander-Arnold, hægri bakvörður liðsins varð fyrir kálfameiðslum í jafnteflinu gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Joël Matip hefur svo reglulega verið fjarri góðu gamni vegna meiðsla undanfarin misseri. Fabinho er hins vegar væntanlegur aftur inn á völlinn þegar landsleikjahléinu lýkur.

Rhys Williams og Nathaniel Phillips hafa fengið óvænt tækifæri í hjarta varnarinnar hjá Liverpool vegna fjarveru framagreindra leikmanna og staðið sig með stakri prýði.

Fyrsti leikur Liverpool eftir landsleikjahléið er toppslagur við Leicester City en fyrir þann leik tróna lærisveinar Brendan Rodgers á toppi deildarinnar með 18 stig eftir átta umferðir og Liverpool og Tottenham Hotspur koma þar á eftir með 17 stig hvort lið.