„Ég fékk tilboð frá þessu liði í síðustu viku og þetta gekk frekar hratt fyrir sig. Það voru önnur tilboð á borðinu hjá mér en mér leist best á þetta. Litháen er öflug körfuboltaþjóð og mikil hefð fyrir körfubolta þar í landi. Ég held að þetta sé góður stökkpallur til þess að komast í stærri deildir.

Ef að ég stend mig vel þarna ættu dyrnar að opnast fyrir mér í sterkari deildum," segir Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfubolta í samtali við Fréttablaðið en hann var kynntur til leiks sem nýr leikmaður litháíska úrvalsdeildarliðsins BC Šiauliai um nýliðna helgi.

„Mér hafði liðið vel hjá Borås og okkur fjölskyldunni leið vel í Svíþjóð. Ég hefði alveg til í að vera áfram hjá Borås en var opinn fyrir því að skoða það eitthvað annað byðist. Sú varð raunin og ég tel þetta gott skref á ferlinum mínum. Markmiðið er að taka eitt skref í einu upp í sterkustu deildirnar í framhaldinu," segir Elvar Már sem valinn var besti bakvörður deildarinnar á nýliðinni leiktíð en Borås varð sænskur meistari í vor.

„Ég er að renna svolítið blint í sjóinn þar sem ég þekki ekki mikið til leikmannahóps liðsins og þekki deildina í Litháen ekki vel. Ég veit bara að þetta er öflug deild og ég hlakka mikið til þess að takast á við þessa ákvörðun. Það er líka spennandi að búa í nýju landi þó ég viðurkenni að það sé erfitt að rífa fjölskylduna frá Borås þar sem við höfðum komið okkur vel fyrir," segir bakvörðurinn sem verður fyrsti Íslendingurinn til þess að spila körfubolta í Litháen.

„Það er líka mikil tilhlökkun hjá mér að leika undir stjórn Ant­an­as Si­reika sem er mjög reynslumikill og fær þjálfari. Ég held að ég geti bætt minn leik umtalsvert undir leiðsögn hans og ég er spenntur fyrir því að vinna með honum. Ég hef heyrt góða hluti um hann og ferilskrá hans í þjálfun segir sína sögu," segr Njarðvíkingurinn.

Ant­an­as Si­reika var í brúnni hjá litháíska karlalandsliðinu þegar liðið varð Evrópumeistari árið 2003.