Alan Kennedy, goðsögn í sögu enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool segist hafa talið að hann myndi láta lífið í aðstæðum sem komu upp fyrir úrslitaleik Liverpool og Real Madrid í Meistaradeild Evrópu undir lok maí mánaðar. Leiknum var frestað um hálftíma vegna þess að margir stuðningsmenn höfðu ekki komist inn á Stade de France leikvanginn og ófremdar ástand skapaðist fyrir utan.
Leiknum var frestað um rúmar 30 mínútur sökum þess hversu margir stuðningsmenn Liverpool voru ekki komnir inn á leikvanginn þegar flauta átti upphaflega til leiks. Myndbönd af aðstæðunum fyrir utan leikvanginn vörpuðu ljósi á aðgerðir lögreglu sem beitti piparúða til þess að hafa hemil á mannskapnum. Fyrstu fregnir af málinu frá lögreglunni í París kváðu á um að í kringum 30-40 þúsund miðalausir stuðningsmenn hefðu verið samankomnir fyrir utan Stade de France. Sú yfirlýsing hefur nú verið dregin til baka og lögreglan beðist afsökunar.
Alan Kennedy, fyrrum leikmaður Liverpool var einn af þeim sem upplifði aðgerðir lögreglu fyrir utan leikvanginn. Hann óttaðist um líf sitt. ,,Þetta var ógnvekjandi kvöld og hræðilegasta reynsla sem ég hef upplifað í kringum knattspyrnuleik," sagði Kennedy í samtali við GB News.
Kennedy var, eins og allir aðrir stuðningsmenn fyrir utan Stade de France, að reyna komast inn á leikvanginn. Mannþröngin var það mikil að Kennedy óttaðist um líf sitt.
,,Á endanum var mér lyft yfir girðingu af nokkrum strákum og syni mínum og ég taldi mig vera úr hættu þá. Ég get hins vegar sagt ykkur að ég óttaðist um líf mitt á þessari stundu. Ég var hræddur í þessum aðstæðum, hef aldrei lent í þessu áður og vil ekki lenda í þessu aftur."
Hann telur að öryggisgæslu í kringum leikinn hafi verið ábótavant. ,,Ég vona að þetta verði rannsakað alveg ofan í kjölinn. Lögreglan taldi á þessum tíma að allir væru að stofna til vandræða og það var notað allt of mikið af piparúða að mínu mati."
Á vefsíðu The Athletic á dögunum birtist grein um unga stuðningsmenn Liverpool sem höfðu farið með fjölskyldum sínum í draumferðina til Parísar þar sem ætlunin var að sjá Liverpool etja kappi við Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Sú draumaferð snerist hins vegar upp í martröð líkt og hinn níu ára gamli Carlos Clemente greinir frá.
,,Ég hélt að einhverskonar sprengja hefði sprungið. Ég var hræddur vegna þess að ég gat ekki andað eðlilega, þetta er eitthvað sem ég hafði aldrei upplifað áður. Hver stóð á bakvið þetta? Pabbi sagði lögreglan og ég varð enn hræddari vegna þess að ég taldi lögregluna alltaf eiga að hjálpa fólki."