Hún er goðsagnakennd, myndin af Kobe Bryant í leik Los Angeles Lakers gegn Detroit Pistons í úrslitakeppni NBA-deildarinnar árið 2008 þar sem hann sést fagna með því að grípa í treyjuna sína á tímabili þar sem hann var valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar.

Fréttablaðið/GettyImages

Á tímabilinu 2007-2008 fór Kobe Bryant á kostum í liði Los Angeles Lakers, var að meðaltali með 28.3 stig í leik og skoraði 2323 stig yfir tímabilið fyrir úrslitakeppnina.

Kobe lét lífið í hörmulegu þyrluslysi þann 26. janúar árið 2020 ásamt átta öðrum einstaklingum, þar á meðal dóttur sinni Gianna Bryant.

Nú er svo komið að umrædd treyja sem Kobe klæðist á myndinni hér fyrir ofan verður boðin upp en um er að ræða einstaka treyju sem uppboðshaldarar telja að gæti verið seld á um 7 milljónir Bandaríkjadala, því sem jafngildir rúmum 981 milljón íslenskra króna.

Svo goðsagna kennd er umrædd mynd af Kobe Bryant að til er risastór veggmynd eftir henni í Los Angeles í Bandaríkjunum og þá hefur hún oft verið notuð á varning frá Los Angeles Lakers.