„Tilfinningin er bara mjög góð, það er gott að vera á stað sem manni líður vel á. Maður þekkir hvern krók og kima, frábærir leikmenn og stjórn. Það er allt í fremstu röð hjá KR,“ sagði Brynjar Þór Björnsson eftir að hann skrifaði undir hjá KR fyrr í dag.

Brynjar Þór er að snúa aftur í KR eftir stutt stopp hjá Stólunum. Hann fylgdist með öðru auga með oddaleiknum gegn ÍR þar sem hann var sjálfur að eignast barn.

„Ég missti að stórum hluta af því, ég var sjálfur að eignast minn annað barn þannig ég fylgdist með þessu með öðru auga,“ sagði Brynjar léttur og hélt áfram:

„Þar sást það að þegar reynir á þá kann KR að landa titlum og nú eru Matthías og Jakob að bætast við. Það er skemmtilegt að þeir séu uppaldir KR-ingar og þekki því kröfurnar og væntingarnar í Vesturbænum. Matthías kemur ungur og ferskur og Jakob með reynsluna.“

Aðspurður út í geysisterkan leikmannahóp KR sem er að mestu leyti byggður á uppöldum KR-ingum sagði Brynjar að það mætti rekja þetta til grasrótarinnar.

„Þetta er það sem KR stendur fyrir, unglinga- og barnastarfið hefur verið frábært undanfarin ár. Það sýnir sig að það þarf að hlúa að grasrótinni og þeirra starfi til að skila góðu starfi í meistaraflokki. Grasrótin skiptir miklu máli til að viðhalda árangri og maður sér fleiri lið vera að gera þetta en það tekur sinn tíma.“

Aðspurður sagði Brynjar að það hefði verið áhugi frá nokkrum liðum.

„Maður heyrði í einhverjum en í lokin stóð þetta á milli KR og Tindastóls og við fjölskyldan ákváðum að koma aftur á kunnuglegar slóðir.“

Brynjar kvaðst hungraður í að vinna titla á ný.

„Það góða við að tapa að þá verður maður hungraðari að vinna og gera betur. Ég vil gera betur en síðustu tvö ár þegar KR hefur verið um miðja deild í deildarkeppninni og fá heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.“