Ísland hóf í gærkvöldi vegferð sína í átt á lokakeppni heimsmeistaramóts kvenna í handbolta sem leikið verður á næsta ári með því að mæta Tyrklandi í fyrsta leik liðanna í undankeppni mótsins sem fram fer í Skopje í Makedóníu þessa dagana. 

Ísland fór með 36-23 sigur af hólmi í leiknum eftir að hafa verið i forystu allan leikinn.

Íslenska liðið setti tóninn strax í upphafi leiksins, en liðið var komið í 3-0 þegar skammt var liðið af leiknum. Staðan í hálfleik var svo 18-14 fyrir Íslandi og leikmenn íslenska liðsins bættu við forskotið í seinni hálfleik.

Tyrkland leikur nokkuð óhefðbundinn handbolta sé tekið mið af evrópskum handbolta og það tók íslensku leikmennina fyrri hálfleikinn að venjast breyttum aðferðum við það að spila bæði sókn og vörn.

Örnu Sif Pálsdóttur héldu engin bönd inni á línunni, en þegar var upp var staðið hafði hún skorað átta mörk í leiknum líkt og Þórey Rósa Stefánsdóttir. 

Þær voru markahæstar hjá íslenska liðinu og Thea Imani Sturludóttir kom næst með fimm mörk. 

Guðný Jenný Ásmundsdóttir átti góðan leik í markinu og varði 16 skot.

„Tyrkneska liðið spilar frekar óhefðbundinn handbolta og það tók okkur nokkurn tíma að aðlagast því. Þegar það var komið náðum við að sigla fram úr og fara með öruggan sigur af hólmi. Það er gott að vera kominn af stað eftir mikla tilhlökkun fyrir þessu verkefni og gott að hafa náð að landa þessum sigri. Það er alltaf góð tilfinning að vera kominn á blað," sagði Axel Stefánsson, þjálfari íslenska liðsins í samtali við Fréttablaðið eftir leikinn.

 „Mér fannst sóknarleikurinn vel spilaður og við náðum að koma mörgum leikmönnum inn í sóknina. Við gátum dreift álaginu vel á milli leikmann og það var mikilvægt. Við spilum allt öðruvísi þegar við mætum Makedóníu og það verður meira líkamlega krefjandi leikur þannig að það er gott að það fór ekki of mikil orka í þennan sigur," sagði hann enn fremur.

Ísland og Tyrkland eru með Makedóníu og Aserbaídsjan í riðli, en efsta liðið í riðlinum fer í umspil um laust sæti í lokakeppninni. Ísland mætir gestgjöfum Makedóníu í dag og hefst leikurinn klukkan 17.00 að íslenskum tíma.  

„Makedónía vann stórsigur gegn Aserbaídsjan í gær og það lítur allt út fyrir að þetta verið úrslitleikur um sigur í riðlinum. Þær eru afar sterkar og góðar í stöðunni maður á móti manni þegar þær komast á ferðina. Við verðum að spila þétta vörn og spila góða hjálparvörn ef við ætlum að ná hagstæðum úrslitum í leiknum í dag," sagði hann.