Opnun félagsskiptagluggans er yfirleitt tími sem stuðningsmenn bíða eftir með spennu enda fordæmi fyrir að kaup í janúarglugga gjörbreyti gengi liða. Portúgalinn Bruno Fernandes hefur á ellefu mánuðum rifið Manchester United upp úr lægðinni líkt og Virgil van Dijk gerði við vistaskiptin til Liverpool fyrir þremur árum.

Ljóst er að kórónaveirufaraldurinn hefur tekið í budduna hjá öllum knattspyrnuliðum. Áhorfendaleysið kostar félögin morð fjár og eru mörg á hálum ís þegar kemur að fjárhagslegu hliðinni en önnur félög með sterkt bakland standa betur að vígi og gætu freistast til að sækja veglegan liðsstyrk fyrir seinni hluta tímabilsins.

Margar af stærstu stjörnum knattspyrnuheimsins undanfarin ár eru í þeirri óvenjulegu stöðu að eiga aðeins sex mánuði eftir af samningi sínum.

Landarnir Sergio Agüero, Angel di María og Lionel Messi, Sergio Ramos og Luka Modric, sem hafa um árabil varist gegn Messi fyrir Real Madrid, David Alaba, Mesut Özil, Gini Wijnaldum og Gianluigi Donnarumma, eru allir að renna út á samningi. Þeir ættu fyrir vikið að fást með tilheyrandi afslætti en það eru einnig leikmenn falir sem hafa ekki sýnt sitt rétta andlit að undanförnu.

Mesut Özil, 32 ára (Arsenal)

Þjóðverjinn Mesut Özil, sem hefur verið duglegur á samskiptamiðlum á sex mánuði eftir af samningi sínum sem einn af launahæstu leikmönnum Arsenal. Skilaboðin voru skýr í haust þegar hann var hvorki skráður í leikmannahóp Skyttanna í ensku úrvalsdeildinni né í Evrópudeildinni. Juventus er búið að afþakka þjónustu Þjóðverjans en tyrkneskar rætur hans gera það að verkum að hann gæti orðið spenntur fyrir tilboði frá stórveldunum í tyrkneska boltanum og peningunum þar. Sóknartengiliðurinn hefur ekki sýnt sitt rétt andlit undanfarin ár og virðist ekki eiga upp á borð í Lundúnum en gæti fundið taktinn á ný á nýjum stað.

David Alaba, 28 ára (Bayern München)

Austurríski landsliðsmaðurinn David Alaba virðist vera harðákveðinn í að yfirgefa Bayern München og hefur afþakkað öll samningstilboð þýsku meistaranna. Hinn fjölhæfi Alaba sem getur leyst stöðu miðvarðar, bakvarðar og miðjumanns hefur leikið rúmlega 400 leiki fyrir Bæjara en virðist vera tilbúinn að róa á ný mið. Alaba hefur verið orðaður við öll stærstu lið Evrópu en vill fá ríflega launahækkun. Það er ljóst að hann styrkir nánast hvaða lið sem er eftir að hafa verið ómissandi hluti af gullaldarliði Bæjara.

Christian Eriksen, 28 ára (Inter)

Grasið er víst ekki alltaf grænna annars staðar og danski sóknartengiliðurinn Christian Eriksen finnur fyrir því í dag. Eriksen vildi ekki framlengja hjá Tottenham í von um vistaskipti til spænsku stórveldanna Barcelona eða Real Madrid en var á endanum keyptur til Inter á Ítalíu. Á tæpu ári hefur Eriksen aðeins byrjað tólf leiki í deildinni, tvisvar leikið allar 90 mínúturnar og engan veginn staðið undir væntingum. Eriksen og Antonio Conte virðast ekki ná saman og virðist leiðin frá Ítalíu vera nokkuð greið fyrir Danann sem hefur verið orðaður við lið á Englandi og PSG.

Dele Alli, 24 ára (Tottenham)

Enski miðjumaðurinn Dele Alli, sem virtist vera tilbúinn að leggja heiminn að fótum sér fyrir tvítugt er orðinn að varaskeifu undir stjórn Jose Mourinho. Mínúturnar eru aðeins 45 í fimmtán leikjum í ensku úrvalsdeildinni og hefur Alli helst fengið að spreyta sig í leikjum í Evrópudeildinni. Mauricio Pochettino sem náði yfirleitt því besta úr enska landsliðsmiðjumanninum, gæti freistast til að bjóða honum yfir Ermarsundið í stjörnum prýtt lið PSG í von um að hinn 24 ára gamli Alli myndi finna töfrana á ný þegar Pochettino tekur við franska liðinu á næstu dögum.