„Ég vil byrja á að óska Víkingi til hamingju með titilinn, þegar þú vinnur titilinn áttu það skilið,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, svekktur í leikslok eftir 0-1 tap gegn Víkingi í úrslitum bikarsins í dag.

Ólafur var ómyrkur í máli þegar hann var spurður út í rauða spjaldið sem Pétur Viðarsson fékk.

„Frá mínu sjónarhorni var það algjörlega glórulaust ákvörðun reka Pétur af velli. Að halda því fram að þetta sé ásetningur þarna, Pétur vinnur boltann og stígur niður, ég sé ekki einu sinni hvort að hann fer í manninn en fjórði dómarinn tekur þessa risaákvörðun. Þetta er algjörlega út í hött að hann sé að taka þessa ákvörðun,“ sagði Ólafur og tók undir að dómarateymið hefði ekki haft stjórn á leiknum.

„Mér fannst þeir ekki hafa stjórn á leiknum. Pétur er einn af okkar betri dómurum og þetta var erfiður leikur að dæma en þessi ákvörðun, stuttu eftir víti sem er ekki hægt að mótmæla, það er með ólíkindum að fjórði dómarinn taki svona stóra ákvörðun.“

FH náði sér aldrei almennilega á strik í dag.

„Aðstæður voru erfiðar í fyrri hálfleik, við lentum undir pressu og áttum erfitt með að koma boltanum í burtu. Þegar við reyndum að koma boltanum upp réðum við illa við það en við vorum alveg sáttir við stöðuna í hálfleik,“ sagði Ólafur fúll og hélt áfram:

„Við ætluðum að gera betur og pressa á þá í seinni en það var slegið úr hendi okkar með þessu rauða spjaldi.“