„Það var gríðarlega svekkjandi að fá á okkur þetta mark af því mér fannst við vera með góða stjórn á leiknum þangað til að þær skora. Við vorum með þær fyrir framan okkur og þær voru ekki að skapa sér mikið,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir, miðvörður íslenska liðsins, svekkt að leikslokum eftir 1-1 jafntefli Stelpnanna okkar og Ítalíu í gær.

Líkt og gegn Belgum á dögunum tók Ísland eitt stig úr leiknum en litlu mátti muna að þau yrðu þrjú.

Þótt að ítalska liðið væri mun meira með boltann fór vel um íslenska liðið í vörninni þegar jöfnunarmarkið kom.

„Okkur líður vel í lágpressunni og við töluðum um það fyrir leik að ef við þyrftum að verjast þannig í einhvern tíma myndum við gera það og taka því fagnandi.“

Glódís tók undir að annað mark, rétt áður en Ítalir skoruðu, var færi til að fara langt með að gera út um leikinn en Ítalir skoruðu beint eftir dauðafæri íslenska liðsins.

„Ef við hefðum komist í 2-0 værum við komnar í allt aðra stöðu, en þetta er það sem við þurfum að taka með okkur. Við verðum að loka leikjum og þótt að við séum góðar að verjast er alltaf þægilegra að vera með tveggja marka forskot.“

Miðvörðurinn hefur trú á verkefninu fyrir lokaleikinn.

„Á góðum degi veit ég að við erum með lið sem getur unnið Frakka. Það er erfiðari leið en við höfum gert það áður.“