„Þetta er fyrsta æfingin sem allur hópurinn tekur fullan þátt í æfingunni sem er jákvætt. Ég kem eldri og reynslumeiri inn í þetta verkefni sem er skemmtilegt hlutverk að takast á við,“ segir Glódís Perla Viggósdóttir, miðvörður íslenska kvennalandsliðsins, aðspurð hvernig fyrstu æfingar liðsins hafa gengið í aðdraganda Evrópumóts kvenna.

„Ég viðurkenni samt alveg að mér finnst skemmtilegra að vera í yngra liðinu á æfingum,“ segir Glódís og skellir upp úr.

Þrátt fyrir að vera aðeins 26 ára gömul er Glódís með reynslumeiri leikmönnum landsliðsins. Hún og Dagný Brynjarsdóttir eru báðar komnar yfir hundrað landsleiki.

Miðvörðurinn segir að það sé meiri ró yfir liðinu í dag heldur en fyrir síðasta stórmót þegar Stelpurnar okkar settu sér háleit markmið en fóru stigalausar heim frá Hollandi.

„Við fórum inn i Evrópumótið 2017 með skýr markmið og ætluðum upp úr riðlinum. Við stóðumst ekki pressuna, hvorki frá okkur né öðrum. Það mátti samt litlu muna, ef fyrsti leikur hefði dottið öðruvísi er ég viss um að þetta mót hefði farið öðruvísi,“ segir Glódís og heldur áfram:

„Tilfinningin var ekki góð eftir mótið, en ef við hefðum fengið stig gegn Frökkum er ég viss um að það hefði spilast öðruvísi. Mér finnst meiri ró yfir hópnum í dag.“

Glódís segir fyrsta markmið að vinna leik en gerir sér grein fyrir að andstæðingar Íslands eru allir erfiðir.

„Við ætlum að vinna leik, þá áttu möguleika að komast upp úr riðlinum en á sama tíma vitum við að þetta eru sterk lið í riðlinum okkar. Þau eru búin að vera í undirbúningi frá því í byrjun júní á meðan við erum að koma saman stuttu fyrir mót. Þrátt fyrir það er ég er bjartsýn og spennt að byrja þetta.“