Ísland mætti Ítalíu í vináttulandsleik í knattspyrnu kvenna í annað skipti á fjórum dögum á Coverciano, æfingasvæði ítalska landsliðsins, í Tirrenia í dag. Lokatölur í leiknum urðu 1-1.

Ítalir hófu leikinn af miklum krafti en Valentina Giacinti kom ítalska liðinu yfir á fyrstu mínútu leiksins. Undir lok fyrri hálfleik jafnaði íslenska liðið metin en þar var að verki Karólína Lea Vilhjálmsdóttir. Annað landsliðsmark Karólínu Leu í sjötta landsleiknum hennar var stórglæsilegt en skot hennar eftir sendingu Sveindísar Jane Jónsdóttur hafnaði í samskeytunum.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Sveindís Jane fengu fín færi til þess að bæta við mörkum en þeim brást bogalistinn. Elín Metta Jensen, sem leysti Berglindi Björgu af hólmi í framlínu íslenska liðsins síðasta stundarfjórðunginn í leiknum, átti gott skot í uppbótartíma sem var varið.

Hafrún Rakel Halldórsdóttir var í byrjunarliði í fyrsta skipti í leik með A-landsliðinu en hún og Karítas Tómasdóttir sem kom inná sem varamaður voru að spila sinn annan landsleik í þessum leik.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var fyrirliði íslenska liðsins í báðum leikjunum gegn Ítalíu.

Lið Íslands í leiknum var þannig skipað:

Sandra Sigurðardóttir

Hallbera Guðný Gísladóttir (Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir '70), Anna Björk Kristjánsdóttir (Guðný Árnadóttir '46), Glódís Perla Viggósdóttir, Hafrún Rakel Halldórsdóttir

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir (Karítas Tómasdóttir '84), Alexandra Jóhannsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir (f)

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (Agla María Albersdóttir '70), Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Elín Metta Jensen '76), Sveindís Jane Jónsdóttir.

Sveindís Jane Jónsdóttir lagði upp mark Karólínu Leu.