Brasilíski fótboltamaðurinn Philippe Coutinho, sem gekk til liðs við Aston Villa frá Barcelona í vikunni, kann greinilega vel að meta gjöf sem þáverandi liðsfélagi hans hjá Barcelona, Lionel Messi gaf honum árið 2019.

Íslendingar eiga góðar minningar frá leik íslenska liðsins gegn Argentínu í riðlakeppni heimsmeistaramótsins í Moskvu í Rússlandi um miðjan júnímánuð árið 2018.

Lionel Messi gekk hins vegar fremur hnípinn að velli en auk þess að hafa gert jafntefli gegn Íslandi sem var að taka þátt í heimsmeistaramóti í fyrsta skipti sögunni hafði Hannes Þór Halldórsson varið vítaspyrnu argentínsku stórstjörnunnar.

Af Hannesi Þór er það helst að frétta þessa dagana að eftir að hafa slegið í gegn sem leikstjóri kvikmyndarinnar Leynilöggunnar ku hann hafa hafnað samningstilboði uppeldisfélags síns, Leiknis, um að leika með liðinu næsta sumar.

Vippum okkur hins vegar aftur til Moskvu þar sem Messi var að jafna sig eftir svekkelsið og greina fjölmiðlum frá sinni sýn á leik Argentínu gegn Íslandi og ræða um framhaldið á mótinu.

Blaðamaðurinn Rama Patarotto freistaði þess að hughreysta og létta geð Messi með því að færa honum forláta rautt armband sem lukkugrip í fjölmiðlasvæðinu eftir leikinn.

Pantarotto trúði ekki eigin augum þegar hann rakst á Messi aftur eftir sigur argentínska liðsins gegn Nígeríu í lokaumferð riðlakeppninnar sem kom Argentínu áfram í 16 liða úrslit mótsins.

Armbandið hafði verið eigu móður blaðamannsins sem benti í átt til himins þegar hann tjáði móður sinni á tilfinningaríkan þátt að armband hennar væri orðin lukkugripur hjá einum af besta leikmanni fóboltasögunnar.

Messi var ekki upplitsdjarfur eftir að Hannes Þór sá við honum.
Fréttablaðið/Getty

Fáeinum mánuðum síðar víkur sögunni til Katalóniu þar sem Coutinho átti erfitt með að blómstra í búningi Barcelona. Greip þá Messi til þess ráðs að færa Brassanum armbandið og sjá hvort að gripurinn myndi færa töfrana í fætur sóknartengiliðsins.

Fljótlega eftir vistaskiptin á armbandinu skoraði Coutinho illu heilli fyrir Messi tvö marka Bayern München þegar þýska liðið slátraði Barcelona 8-2 í útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Þó að með sanni megi vissulega segja að leikmenn Barcelona, í bland við ævintýralega slakar ákvarðanir forráðamanna liðsins, hafi orðið til þess að liðið sýndi eina verstu frammistöðu í sögu félagsins þá skal ekki útilokað að Messi hafi átt þátt í að vekja fætur fyrrverandi samherja síns til lífsins.

Illu heilli fyrir Messi var Coutinho nú orðinn andstæðingur hans og Brasilíumaðurinn hafði fundið fjöl sína í Bæjaralandi, eitthvað sem hann gerði aldrei í búningi Barcelona.

Nú tæpum þremur árum síðar mætti Coutinho glaðbeittur í myndatöku þar sem hann var kynntur sem nýjasti leikmaður Aston Villa skartaði hann armbandi sínu á úlnliðnum.

Coutinho verður að öllum líkindum í eldlínunni þegar Aston Villa mætir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Þar mun hann leika undir stjórn Steven Gerrard, fyrrverandi liðsfélaga síns hjá Liverpool.