Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, fór úr axlarlið á vinstri öxl í leik með Magdeburg gegn Fücshe Berlin í þýsku efstu deildinni í gær.

Gísli Þorgeir, sem fór úr lið á öxlinni vinstra megin í þriðja skiptið á ferlinum, staðfesti þetta í samtali við Fréttablaðið.

Leikstjórnandinn öflugi hefur skorað 39 mörk í þeim 21 deildarleik sem hann hefur spilað fyrir Magdeburg í vetur. Nú verður hann hins vegar fjarri góðu gamni næstu vikurnar vegna axlarmeiðslanna.

Gísli Þorgeir þarf að fara í aðgerð vegna þessara meiðsla og því er ljóst að hann spilar ekki meira með á yfirstandandi leiktíð.

Magdeburg fór með sigur af hólmi gegn Füchse Berlin í gær og skaust þar af leiðandi upp í annað sæti deildarinnar.

Þetta er gríðarlegt áfall fyrir Gísla Þorgeir sem var nýkominn aftur í sitt fyrra form eftir að hafa glímt við meiðsli reglulega undanfarin ár.