Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, hefur skrifað undir samning við þýska efstudeildarliðið Magdeburg en samningur hans við félagið við félagið gildir fram á komandi vor. Þessi tvítugi leikstjórnandi var á dögunum leystur undan samningi við Kiel en hefur nú fundið næsta áfangastað á ferli sínum.

Gísli Þorgeir meiddist á öxl síðastliðið sumar en hann hafði þá nýverið jafnað sig á axlarmeiðslum sem hann varð fyri sem leikmaður hjá uppeldisfélaginu sínu, FH, vorið 2018.

Hann er kominn með leikheimild hjá Magdeburg og getur byrjað að spila með liðinu þegar hlénu sem gert var vegna Evrópumótsins lýkur. Fari svo að samningur Gísla Þorgeirs við Magdeburg verður framlengdur í sumar verður hann liðsfélagi Ómars Inga Magnússonar sem gengur til liðs við þýska liðið frá danska liðinu Álaborg eftir leiktíðina sem nú er í gangi.

Magdeburg er eins og sakir standa í fjórða sæti þýsku efstu deildarinnar en liðið er tveimur stigum á eftir Kiel sem trónir á toppi deildarinnar.

Gísli Þorgeir mun berjast um leikstjórnendastöðuna við norska landsliðsmanninn Christian O'Sullivan og slóvenska landsliðsmanninn Marko Bezjak hjá Magdeburg.

Íslenski landsliðsmaðurinn getur einnig leikið í vinstri skyttustöðunni þar sem fyrir eru landsliðsmennirnir Piotr Chrapkowski frá Póllandi, Makedóninnn Filip Kuzmanovski og Daninn Michael Damgaard.