Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður íslenska landsliðsins í handbolta staðfesti í viðtali við RÚV eftir tap Íslands fyrir Svíþjóð á HM í handbolta í kvöld að markmiðið hjá liðinu fyrir mót hafi verið að enda á palli og lyfta heimsmeistaratitlinum.

Ísland tapaði í kvöld fyrir Svíþjóð í milliriðlum HM og tapið gerir það að verkum að möguleikar Íslands á sæti í 8-liða úrslitum mótsins eru litlir sem engir.

Væntingarnar í garð íslenska landsliðsins fyrir mót voru miklar en íslenska landsliðinu hefur ekki tekist að ná því skriði sem landsmenn vonuðust eftir.

Eftir leik var Gísli Þorgeir til viðtals hjá RÚV þar sem hann fékk spurningu frá einum af sérfræðingum RÚV, Loga Geirssyni, fyrrum atvinnu- og landsliðsmanni sem spurði Gísla að því hvort markmið liðsins hafi verið að lyfta heimsmeistaratitlinum.

Gísli Þorgeir svaraði því játandi. Markmið liðsins hafi verið að standa á verðlaunapalli að móti loknu og enn fremur að lyfta heimsmeistaratitlinum.