Knattspyrnumaðurinn Gísli Eyjólfsson mun snúa aftur til Breiðabliks og leika með liðinu eftir rúmlega hálfs árs dvöl á láni hjá sænska B-deildarliðinu Mjallby.

Viðræður milli félaganna og Gísla hafa staðið yfir í nokkra daga og nú hefur ákvörðun verið tekin með framhaldið. Það er blikar.is sem greinir frá þessu.

Breiðablik er eins og staðan er núna í harðri baráttu við KR um toppsætið í Pepsi Max-deildinni en KR trónir á toppnum með 23 stig á meðan Breiðablik er sæti neðar neð 22 stig.

Liðin mætast einmitt í næstu umferð deildarinnar mánudaginn 1. júlí en Gísli verður löglegur með Breiðabliki í þeim leik. Næsti leikur Breiðabliks er gegn Fylki í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins annað kvöld en Gísli verður ekki kominn með leikheimild í þeim leik.