Íslandsmót fatlaðra í frjálsum íþróttum innanhúss fór fram um síðustu helgi í Kaplakrika. Þar náði spretthlauparinn Patrekur Andrés Axelsson að bæta persónulegt met sitt í tveimur greinum.

Patrekur Andrés hljóp 60 metra á 7,94 sekúndum og 200 metra á 26,23 sekúndum. Í 60 metra hlaupinu hljóp aðstoðarmaðurinn á undan Patreki Andrési í mark og því fékkst sá tími ekki staðfestur og hlaupið var dæmt ógilt af þeim sökum.

„Það er mjög þægileg tilfinning að finna að ég sé á svipuðum stað og fyrir ári síðan og sé að bæta mig áfram þrátt fyrir að hafa misst heilt ár úr í þátttöku á mótum vegna COVID. Svo var gott að fyrsta keppnishlaupið með nýjum aðstoðarmanni, sem ég byrjaði að vinna með í janúar, í upphafi þessa árs, hafi gengið vel,“ segir Patrekur Andrés um hlaupin.

„Sömuleiðis er það gott að við höfum gert þessi mistök í 60 metra hlaupinu á þessum tímapunkti en ekki á einhverju stórmóti. Ég hljóp svo 200 metra hlaupið einn, þar sem aðstoðarmaðurinn meiddist á nára, þannig að það er rúm fyrir enn meiri bætingu þar.

Það er mikilvægara að fá aðstoð í 200 metra hlaupinu og svo sýnir þetta þörfina á því að hafa tvo aðstoðarmenn til taks eins og ég er kominn með núna. Ef annar þeirra forfallast getur hinn hlaupið í skarðið,“ segir hann enn fremur um stöðu mála.

Vonbrigði að missa út heilt ár á þessum tímapunkti á ferlinum

„Fyrir einu ári síðan var ég á góðum stað, var að bæta mig jafnt og þétt og setti stefnuna á Ólympíuleikana í Tókýó. Af þeim sökum voru það vissulega mikil vonbrigði að missa heilt ár út, sérstaklega þar sem ég er á þeim aldri að ég ætti að vera að ná hápunkti á spretthlaupsferlinum sem hófst árið 2014.

Nú er ég hins vegar að finna taktinn aftur og þessir tímar sýna mér það að ég á góða möguleika að komast til Tókýó í sumar. Svo er bara að vona að veiran hrifsi það ekki frá okkur aftur,“ segir þessi 26 ára gamli hlaupari.

Um áramótin ákvað Patrekur Andrés að söðla um frá Ármanni, sem hann hafði keppt fyrir allan sinn hlaupaferil, og skipta yfir í FH. Breiðhyltingurinn segir að aðstöðumál hafi skipt mestu þegar hann tók þá ákvörðun.

Flúði aðstöðuleysið í Reykjavík

„Mér leið mjög vel hjá Ármanni og þar var ég að bæta mig sem spretthlaupari. Eins og margoft hefur verið bent á hins vegar þá er aðstaðan fyrir frjálsar íþróttir óboðleg í Reykjavík og ég ákvað þess vegna að fara yfir í FH þar sem aðstaðan er mun betri. Þar eru aðrar áherslur hvað æfingar varðar og ég er til að mynda að lyfta minna og meira einblínt á hraða í æfingaplaninu.

Lyftingaæfingarnar eru færri en markmiðið er gæði frekar en magn. Þó svo að vigtin sé sú sama þá líður mér eins og ég sé léttari og það er að skila sér á hlaupabrautinni. Ég er svo sjálfur að ná betri tökum á fótavinnunni, tek kraftmeiri skref og sjálfsöryggið í hlaupunum er meira og meira með hverju hlaupinu sem ég hleyp.

Næst á dagskrá er Íslandsmótið utanhúss þar sem stefnan er að koma mér inn á lista fyrir komandi Ólympíuleika. Vonandi næ ég bara lágmarkinu þar en ég hef svo tíma fram í júní eða júlí til þess að tryggja mér farseðilinn til Tókýó.

Ég er vongóður um að það takist og ef ég held áfram að hlaupa eins og ég hef verið að gera ætti það að takast,“ segir Patrekur um ástæðu vistaskiptanna og framhaldið hjá sér.