Ryan Giggs, fyrrum leikmaður Manchester United er mættur í vitnastúkuna til að svara fyrir ásakanir sem fyrrum kærasta hans Kate Greville hefur lagt fram á hendur honum. Meðal þess sem Giggs hefur verið spurður út í dag er atvik þar sem Kate segir hann hafa skallað sig. Giggs neitar því staðfastlega að hann hafi skallað Kate.

Chris Daw, verjandi Giggs byrjaði á því að spyrja hann spurninga í vitnastúkunni í morgun. Ein spurninganna beindist að viðkvæmum myndböndum sem Giggs bjó yfir af sér og Kate. Giggs var spurður að því hvað hann gerði við umrædd myndbönd. „Ég held að ég hafi eytt þeim," var svar Giggs.

Svo beindist áhersla Daw að knattspyrnuferli Giggs og hann benti á þá staðreynd að Giggs spilaði yfir 1000 leiki á sínum atvinnumannaferli. „Hversu oft varstu rekinn af velli?" var spurning Daw til Giggs í kjölfarið.

,,Einu sinni," svaraði Giggs. Daw hélt áfram og spurði hann hvort það hafi oft verið reynsla hans sem knattspyrnumaður að stuðningsmenn liða væru að áreita hann. ,,Í hverri viku, það fylgir því að vera atvinnumaður í knattspyrnu."

Segist ekki hafa skallað Kate

Fyrir viku síðan sagði Kate frá atviki þar sem Giggs reiddist henni, atviki sem endaði með því að hann skallaði hana. Kate segir að í aðdraganda umrædds atviks hafi hún og Giggs verið að rífast hún hafi komist að því að hann hefði átt í ástarsambandi við átta mismunandi konur á meðan að sambandi þeirra stóð. Hann hafi verið með síma hennar í hendi sér og sagt henni að fara.

Kate bað um síma sinn en Giggs hafi neitað að gefa hann eftir til hennar. Kate segir að Giggs hafi sagst hafa hringt á lögregluna og að hann myndi greina þeim frá því að hún hefði ráðist á sig. Kate segist hafa sagt Giggs að hún væri ánægð með að hann hafi hringt í lögregluna. Í þann mund sem hún hafi sagt það hafi Giggs labbað upp að henni og skallað hana.

Giggs segir að Kate hafi oft sakað sig að hafa haldið framhjá sér. Stundum hafi það átt rétt á sér. Þetta umrædda kvöld hafi Kate ákveðið að fara frá honum. Hún og systir hennar hefðu pakkað í töskur, Giggs segist hafa ætlað að hræða þær úr húsinu með því að hringja á lögregluna en hann fann ekki símann sinn.Hann taldi Kate vera með hann og leitaði því til nágranna síns, Lindu Cheung og reyndi að fá hana til þess að hringja á lögregluna.

Hún hafi hins vegar ekki viljað blanda sér í málin líkt og Linda sjálf útskýrði í vitnastúkunni á dögunum. Þá hafi Giggs snúið aftur heim til sín, Kate neitaði því enn að vera með símann hans.

,,Við vorum á ganginum í húsinu. Kate var með símann sinn í hendinni, ég reyndi að ná til hans. Ég var pirraður vegna þess að Kate vildi ekki láta mig fá símann minn aftur. Þess vegna reyndi ég að ná til síma hennar."

Giggs segir að þau hafi bæði ,,runnið til" og endað á gólfinu. Kate endaði á bakinu, Giggs ofan á henni. Hún hafi síðan byrjað að sparka í höfuðið á honum.

,,Hún endurtók það sex eða sjö sinnum. Ég reyndi bara að verja höfuðið á mér."

Stuttu seinna fann Giggs símann sinn á gluggasyllu í húsinu. Hann hafði beðið Kate og systur hennar Emmu um að yfirgefa húsið. Hann tók síðan eftir því að sími Kate lá á glámbekk í einu herberginu og ákvað að taka hann.

Kate tók síðan eftir því að Giggs hafi tekið símann hennar. Hann segir að Kate hafi reynt að ná til hans. Hafi gripið í úlnliðinn á honum og reynt að ná símanum úr vasa Giggs. Þau hafi farið um eldhúsið í nokkurs konar glímu og að á endanum hafi höfuð þeirra skallað saman.

,,Eftir á sakaði hún mig um að hafa slegið hana í hausinn. Nú sakar hún mig um að hafa skallað sig," sagði Giggs og neitar því staðfastlega að hafa skallað Kate.

Segist ekki hafa gengið berserksgangi

Giggs segist ekki muna eftir því að hafa brotið lampa í reiðiskasti í íbúð Kate og þá neitar hann því að hafa sett pressað hana í að stunda kynmök með sér. ,,Í hvert einasta skipti sem við stunduðum kynmök þá var það gegn samþykki okkar beggja."

Hann segir þeirra kynferðislega samband hafa verið heilbrigt þó það gæti stundum hafa orðið harkalegt.

Neitar að hafa daðrað við aðra konu

Eitt af því sem kom fram á fyrsta degi réttarhalda er að Giggs hafi hent Kate naktri út af hótelherbergi í London og að hún hafi staðið á ganginum þar án fata og ekki vitað hvað ætti að gera eftir rifrildi þeirra á milli þar sem Kate sakaði hann um að hafa verið að daðra við aðra konu.

Giggs segir það ekki rétt að hann hafi verið að daðra við umrædda konu. ,,Þetta var jólaboð og það voru allir að tala saman. Ég spurði Kate hvort það væri allt í lagi hjá henni sem hún svaraði neitandi. Það kom mér á óvart en hún sakaði mig um að hafa verið að daðra við aðra konu sem ég var ekki að gera. Við sátum á sitthvorum enda borðsins sem setið var við og hún sagði okkur hafa verið að horfa ítrekað á hvort annað."

Hann sakar Kate miklu frekar um að hafa verið lausleg á næturklúbbi síðar þetta umrædda kvöld. ,,Ég sá Kate og annan karlmann á dansgólfinu. Þau dönsuðu saman, leiddust og horfðu í augun á hvort öðru. Ég trúði ekki mínum eigin augum, talaði við umboðsmann minn og sagði honum að ég ætlaði upp á hótel, fór í leigubíl og upp á hótel."

Kate hafi síðan komið seinna upp á hótelherbergið þar sem Giggs segir þau hafa rifist. Hann neitar hins vegar ásökunum hennar um að hafa hent ferðatösku í hausinn á henni. Hann segist hafa sagt Kate að hann vildi ekki sofa í sama rúmi og hún. ,,Ég bað hana um að sofa í öðru herbergi í svítunni sem við vorum í."

Giggs segir að stuttu seinna hafi fjarað úr rifrildi þeirra og að á endanum hafi þau sofið í sama rúmi þessa umræddu nótt.

Rifust harkalega í Dúbaí

Spjótin beindust síðan að ferðalagi Giggs og Kate til Dúbaí í kringum jólin árið 2019, fyrir það hafði parið verið í sundur í nokkrar vikur. Giggs segir þau hafa rifist í þessari ferð.

,,Einn daginn fórum við í hádegismat með vinum okkar og þar drukkum við nokkrar flöskur af rósavíni. Við urðum bæði drukkin og ég missti út úr mér nafn fyrrum eiginkonu minnar þegar að ég ætlaði að ná athygli Kate. Hún var augljóslega ekki ánægð með það."

Giggs segir að við þetta hafi soðið upp úr. ,,Hún byrjaði að pakka í ferðatösku og ætlaði bara að fara sem hún og gerði.

Giggs flaug einn tilbaka til Englands en Kate varð eftir í Dúbaí. ,,Ég tel að það séu fleiri góðar stundir en vondar í okkar sambandi. Við rifumst á fjögurra til fimm ára tímabili en það er ekki saga okkar sambands."