Þær eru hrollvekjandi og grafískar, ásakanirnar sem Kate Greville, fyrrum kærasta Ryan Giggs hefur borið fram í dómssal undanfarna tvo daga. Giggs er sakaður um að hafa beitt Kate líkamlegu og andlegu ofbeldi og þá er hann einnig sakaður um að hafa ráðist á systur hennar, Emmu.

Fyrstu dagana í dómssal hefur verið einblínt á frásögn Kate um ásakanir hennar á hendur Giggs, sem var á sínum tíma Englandsmeistari þrettán sinnum með Manchester United.

Í gær sagði Kate frá atviki þar sem Giggs reiddist henni, atviki sem endaði með því að hann skallaði hana. Kate segir að í aðdraganda umrædds atviks hafi hún og Giggs verið að rífast. Hann hafi verið með síma hennar í hendi sér og sagt henni að fara.

Kate bað um síma sinn en Giggs hafi neitað að gefa hann eftir til hennar. Kate segir að Giggs hafi sagst hafa hringt á lögregluna og að hann myndi greina þeim frá því að hún hefði ráðist á sig.

,,Hann var mjög reiður," sagði Kate er hún gaf vitnisburð í dómssal í gær. ,,Reiði blönduð af hroka. Hann var að reyna leiða mig í gildru."

Kate segist hafa sagt Giggs að hún væri ánægð með að hann hafi hringt í lögregluna. Í þann mund sem hún hafi sagt það hafi Giggs labbað upp að henni og skallað hana.

,,Ég sagði við hann 'ég trúi því ekki að þú hafir gert þetta'. Ég var í sjokki og féll aftur fyrir mig. Vörin á mér bólgnaði um leið og ég fann blóðbragðið í munninum. Hann vildi vísvitandi meiða mig, hann horfði beint í augun á mér og skallaði mig."