Fyrrum knattspyrnumaðurinn Ryan Giggs brotnaði saman í dómssal í gær þegar hann lýsti einu nótt sinni í fangaklefa til þessa eftir meinta árás hans á Kate Greville. Hann segir þetta hafa verið sína verstu lífsreynslu til þessa.

Giggs segist hafa verið hræddur þegar að hann ræddi við lögreglumenn að kvöldi 1. nóvember 2020, kvöldið sem Kate sakar hann um að hafa ráðist á sig og skallað sig á heimili þeirra. Giggs segist aldrei hafa lent í þessari stöðu áður.

Hann byrjaði að brotna saman er hann lýsti því hvernig hann var fluttur á lögreglustöðina eftir að hafa verið handtekinn á heimili sínu þetta umrædda kvöld. ,,Versta lífsreynsla mín til þessa," sagði hann um nóttina í fangaklefa. Hann segist lítið sem ekkert hafa sofið þessa nótt.

Neitar að hafa skallað Kate

Fyrir viku síðan í dómssalnum sagði Kate frá atviki þar sem Giggs reiddist henni, atviki sem endaði með því að hann skallaði hana. Kate segir að í aðdraganda umrædds atviks hafi hún og Giggs verið að rífast hún hafi komist að því að hann hefði átt í ástarsambandi við átta mismunandi konur á meðan að sambandi þeirra stóð. Hann hafi verið með síma hennar í hendi sér og sagt henni að fara.

Kate bað um síma sinn en Giggs hafi neitað að gefa hann eftir til hennar. Kate segir að Giggs hafi sagst hafa hringt á lögregluna og að hann myndi greina þeim frá því að hún hefði ráðist á sig. Kate segist hafa sagt Giggs að hún væri ánægð með að hann hafi hringt í lögregluna. Í þann mund sem hún hafi sagt það hafi Giggs labbað upp að henni og skallað hana.

Giggs segir að Kate hafi oft sakað sig að hafa haldið framhjá sér. Stundum hafi það átt rétt á sér. Þetta umrædda kvöld hafi Kate ákveðið að fara frá honum. Hún og systir hennar hefðu pakkað í töskur, Giggs segist hafa ætlað að hræða þær úr húsinu með því að hringja á lögregluna en hann fann ekki símann sinn.Hann taldi Kate vera með hann og leitaði því til nágranna síns, Lindu Cheung og reyndi að fá hana til þess að hringja á lögregluna.

Hún hafi hins vegar ekki viljað blanda sér í málin líkt og Linda sjálf útskýrði í vitnastúkunni á dögunum. Þá hafi Giggs snúið aftur heim til sín, Kate neitaði því enn að vera með símann hans.

,,Við vorum á ganginum í húsinu. Kate var með símann sinn í hendinni, ég reyndi að ná til hans. Ég var pirraður vegna þess að Kate vildi ekki láta mig fá símann minn aftur. Þess vegna reyndi ég að ná til síma hennar."

Giggs segir að þau hafi bæði ,,runnið til" og endað á gólfinu. Kate endaði á bakinu, Giggs ofan á henni. Hún hafi síðan byrjað að sparka í höfuðið á honum.

,,Hún endurtók það sex eða sjö sinnum. Ég reyndi bara að verja höfuðið á mér."

Stuttu seinna fann Giggs símann sinn á gluggasyllu í húsinu. Hann hafði beðið Kate og systur hennar Emmu um að yfirgefa húsið. Hann tók síðan eftir því að sími Kate lá á glámbekk í einu herberginu og ákvað að taka hann.

Kate tók síðan eftir því að Giggs hafi tekið símann hennar. Hann segir að Kate hafi reynt að ná til hans. Hafi gripið í úlnliðinn á honum og reynt að ná símanum úr vasa Giggs. Þau hafi farið um eldhúsið í nokkurs konar glímu og að á endanum hafi höfuð þeirra skallað saman.

,,Eftir á sakaði hún mig um að hafa slegið hana í hausinn. Nú sakar hún mig um að hafa skallað sig," sagði Giggs og neitar því staðfastlega að hafa skallað Kate.

Ásakanirnar:

The Athletic hefur tekið saman allar ásakanirnar á hendur Giggs og eru þær eftirfarandi auk meintrar árásar sem á að hafa átt sér stað í nóvember árið 2020:

  • Að hafa sent fyrrum kærustu skilaboð, og/eða blokkað hana þegar að hún var úti að skemmta sér með vinkonum sínum.
  • Hótaði að senda tölvupósta á vini hennar sem og samstarfsmenn um kynferðislegar athafnir þeirra og hegðun.
  • Hent henni (Greville) og eigum hennar út úr húsinu þegar að hún spurði Giggs út í samband hans við aðrar konur.
  • Á Stafford hótelinu í Lundúnum, hafi hann sparkað í bak hennar, hent henni út úr herberginu án klæða og í kjölfarið hent tösku hennar í hana eftir að Greville sakaði Giggs um að hafa reynt við aðrar konur.
  • Ítrekað sent óæskileg skilaboð og hringt óæskileg símtöl til hennar og vina hennar þegar að hún reyndi að slíta sambandi þeirra.
  • Mætti ítrekað óumbeðinn á heimili hennar, vinnustað sem og líkamsræktarstöð eftir að hún reyndi að binda enda á samband þeirra.

Giggs hefur neitað sök í öllum liðum en undanfarna mánuði hefur hann verið laus gegn tryggingu gegn ákveðnum skilyrðum. Hann hefur ekki mátt setja sig í samband við Kate Greville né Emmu systur hennar.