Það skýrist um helgina hver það verður sem hreppir heimsmeistaratitil ökumanna í Formúlu 1. Max Verstappen, ökumaður Red Bull Racing og Sir Lewis Hamilton, ökumaður Mercedes, eru jafnir að stigum fyrir lokakeppni tímabilsins sem fer fram í Abu Dhabi.

Keppt verður á breyttri braut í Abu Dhabi og vonir standa til að hún verði nú kappakstursvænni eftir breytingarnar. Kristján Einar segir í upphitunarþætti Pittsins fyrir keppni helgarinnar að hann telji að breytingarnar séu af hinu góða. ,,Þetta er ekki flókið, þessar uppfærslur eru nákvæmlega það sem þessi braut þarf. Ég held í alvörunni að Abu Dhabi sé að fara frá því að vera léleg kappakstursbraut yfir í að vera mjög fín kappakstursbraut."

Brautin sem keppt verður á um helgina í Abu Dhabi
F1.com

Bragi Þórðarson segir þriðja tímatökusvæðið ennþá vera akkílesarhæl brautarinnar. Kristján segir það henta mjög vel fyrir slaginn á milli Mercedes og Red Bull Racing um helgina. ,,Það jafnar leikinn. Tímatökurnar eru alveg 50/50."

,,Bíll Mercedes verður ólseigur á fyrsta og öðru tímatökusvæði en Red Bull étur hann til baka á þriðja tímatökusvæðinu," bætti Bragi við.

Kristján segir að Mercedes bílnum verði refsað því fyrstu tvö tímatökusvæðin taki lúmskt mikið á afturdekkin en kæli framdekkin í leiðinni. ,,Það eru veikleikar hjá Mercedes bílnum en þar mun Red Bull bíllinn éta upp Mercedes á tímatökusvæði þrjú. Red Bull mun ábyggilega þurfa að halda aftur af sér á tímatökusvæði eitt og tvö til þess að eiga inni allt gripið á tímatökusvæði þrjú."

Æfingar á breyttri Abu Dhabi braut hefjast á morgun, tímatakan fer fram á laugardaginn og á sunnudaginn skýrist það hver verður næsti heimsmeistari Formúlu 1.

Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á uppgjör Pittsins um keppni síðustu helgar sem var vægast sagt dramatískt: