Rúrik Gíslason segir að spennan í íslenska hópnum fyrir leikinn gegn Argentínu á laugardaginn sé mikill.

„Það er óhætt að segja það. Þetta er búið að byggjast hægt og rólega upp. Það er spenna í hópnum,“ sagði Rúrik. Að hans sögn er íslenska liðið búið að fara vel yfir það argentínska.

„Ég hef ekki töluna á því hvað við erum búnir að funda oft um þá en það er nokkrum sinnum. Síðasti fundur var í gærkvöldi þar sem við fórum yfir varnar- og sóknarleik og alls konar atriði. Ég held að við getum ekki verið mikið betur undirbúnir,“ sagði Rúrik.

Hann segist ekki vita hvort hann verði í byrjunarliðinu á laugardaginn en vonast að sjálfsögðu til þess.

„Það hefur ekkert verið gefið til kynna í þeim efnum. Byrjunarliðið verður rétta byrjunarliðið. Það eru allir hérna með mikilvægt hlutverk, hvort sem það er innan vallar eða utan. Það er mikilvægt að við séum saman í þessu en auðvitað langar alla til að spila,“ sagði Rúrik.

Fyrr í vikunni bárust fréttir af því að Rúrik væri búinn að skrifa undir nýjan tveggja ára samning við þýska B-deildarliðið Sandhausen sem hann hefur leikið með frá því í janúar.

„Ég er mjög ánægður og það var fínt að klára þetta fyrir HM. Þá get ég einbeitt mér að fullu að því að keppa á heimsmeistaramótinu,“ sagði Rúrik að lokum.