Það var ekki að sjá að íslenska liðið væri að lesa of mikið í neyðarlegt tap Ítala gegn Frökkum um helgina í undirbúningi íslenska liðsins í gær fyrir leikinn gegn Ítölum í dag. Sigurvegari í leiknum í dag kemst í lykilstöðu í D-riðli þegar kemur að því að komast áfram en fari svo að Ítalir vinni verður staða íslenska liðsins afar strembin.

„Ítalska liðið er mjög skipulagt og agað varnarlega, þó að það hafi ekki sést í frábæran varnarleik í fyrri hálfleik gegn Frökkum. Ég held að ég muni tölurnar rétt, að þær hafi fengið á sig átta mörk í síðustu tíu leikjum, þar af fimm gegn Frökkum,“ segir Þorsteinn Halldórsþegar hann var spurður út í síðasta leik Ítala á blaðamannafundi í gær. „Þetta er sterkt lið og ég horfi ekki á úrslitin gegn Frökkum sem dæmi um leik hjá Ítölum.“

Þorsteinn tekur undir að upplifun Ítala af leiknum hafi líklegast verið erfið enda lentu þær fimm mörkum undir í fyrri hálfleik.„Auðvitað hlýtur þetta að hafa verið mjög erfitt fyrir þær. Við þurfum að vera tilbúnar því þær mæta mjög grimmar í þennan leik. Þær líta á þetta sem slys, þennan leik á móti Frakklandi, þó að seinni hálfleikur hafi verið jákvæður. Við þurfum að mæta þeim af krafti og vera vel gíraðar í að takast á við þær. Ítalir láta finna fyrir sér og veigra sér ekki við því að fara í allt af krafti svo að við þurfum að búast við látum og slagsmálum.“

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska landsliðsins
©Torg ehf / Ernir Eyjólfsson

Eftir jafntefli gegn Belgíu á dögunum þurfa Stelpurnar okkar nauðsynlega á þremur stigum að halda í dag. Þetta verður áttunda viðureign liðanna og til þessa hefur Ísland aðeins unnið einn leik, fyrir 21 ári.

„Ítalska liðið fær ekki mörg mörk á sig og skorar um leið ekkert endilega rosalega mörg mörk. Þær eru mjög agaðar í sínum leik, gefa lítið svæði á milli línanna og eru þéttar vel í varnarleiknum. Það eru ákveðnar leiðir sem við þurfum að finna til að geta skapað færi. Svo eru Ítalir góðir í að sækja hratt með því að vinna boltann með því að pressa hátt uppi.“

Fyrstu leikir íslenska liðsins undir stjórn Þorsteins voru einmitt gegn Ítölum síðasta vor þar sem Ítalir unnu einn leik og öðrum leik lauk með jafntefli. Hann á von á því að Ísland spili betur í dag.

„Það var ekkert á skýrslunni frá njósnaranum sem tengist þeim leik. Ég veit um hluti sem þær voru að reyna að gera og við höfum unnið í því að laga hluti síðan þá. Ítalska liðið spilar að mörgu leyti enn svipaðan fótbolta. Varnarleikurinn er framkvæmdur á svipaðan hátt og sóknarleikurinn er svipaður.“

Hann segir að þjálfarateymið hafi lagt áherslu á skilaboð um að örlögin séu enn í höndum íslenska liðsins.

„Stemmingin er bara búin að vera nokkuð góð hjá okkur. Við höfum lagt áherslu á það að hlutirnir eru enn í okkar höndum. Þetta snýst um okkar frammistöðu og úrslitin í okkar leik og það er mikil tilhlökkun fyrir því að spila þennan leik,“ segir Þorsteinn og tekur Dagný Brynjarsdóttir í sama streng.

„Við erum tilbúnar, enda búið að undirbúa okkur vel. Ég held að spennustigið sé jafnvel betra. Það er búið að taka mesta skrekkinn eftir fyrsta leikinn og við verðum klárar frá fyrstu mínútu,“ segir Dagný sem tekur undir þau orð þjálfarans að þær séu ekki að horfa of mikið í úrslitin í síðasta leik Ítala.

Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins á blaðamannafundi í gær
©Torg ehf / Ernir Eyjólfsson

„Maður var hissa, það er ekki svona mikill munur á þessum liðum. Það er búið að fara vel yfir þetta með okkur og við vitum að þetta var út úr karakter hjá þeim. Þetta verður nýr leikur á móti okkur og það skiptir ekki öllu hvernig síðasti leikur fór.“

Leikur Íslands og Ítalíu á Evrópumótinu í knattspyrnu hefst klukkan 16:00 í dag og verður í beinni útsendingu á RÚV. Fréttablaðið greinir frá öllu því helsta í tengslum við leikinn.