Víkingur Reykjavík sótti fín úrslit til Malmö í fyrri leik liðanna í undankeppni Meistaradeildar Evrópu í gær. Leiknum lauk 3-2 fyrir heimamenn en Víkingar voru manni færri frá 39. mínútu. Yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi tjáði sig um dómgæsluna við Fréttablaðið.

Martin Olsson kom Malmö yfir á sextándu mínútu. Kristall Máni Ingason jafnaði metin rúmum tuttugu mínútum síðar og fagnaði hann með því að setja fingur fyrir varir sínar og „sussa“ á stuðningsmenn heimaliðsins. Fyrir það uppskar hann sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt. Fyrra spjaldið fékk hann fyrir leikaraskap. Malmö átti svo eftir að komast í 3-1 áður en Víkingur minnkaði muninn undir lok leiks. Lokatölur 3-2.

„Hún var náttúrulega ekki góð,“ segir Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi, við Fréttablaðið um dómgæsluna í leiknum. „Hann var gríðarlega spjaldaglaður fyrir litlar sakir, rosalega sérstök lína sem hann setur. Það var svolítið verið að sparka á eftir Kristali Mána, sem ég skil alveg, hann er gríðarlega góður leikmaður. Oft er eina leiðin til að stöðva hann að sparka hann niður. Það virtist vera þemað í þessu hjá þeim, þegar hann var búinn að snúa á þá var hann bara tæklaður. Leikmaður sem er búinn að lenda í því, þú getur ekki bókað hann fyrir dýfu því þeir koma alltaf inn rennandi. Þetta getur verið hættulegt.“

Þar sem um tvö gul spjöld var að ræða geta Víkingar þó ekki áfrýjað dómnum eða brugðist við á einhvern máta til að fá banninu, sem Kristall er kominn í fyrir seinni leikinn, aflétt. „Það eina sem gæti gerst er að þessi dómari fái ekki að dæma aftur. Það skiptir okkur akkúrat engu máli. Við græðum ekkert á því að hann fái ekki að dæma einhvern annan leik en okkar,“ segir Kári „Það er leiðinlegt að það sé ekkert ferli þar sem hægt er að fá einhverja réttvísi í þetta.“

Kári segir menn fagna eins og Kristall gerði í gær í viku hverri á stærsta sviði fótboltans. „Þetta er frústrerandi fyrir leikmann sem er að reyna að sýna sig á alþjóðlegu sviði. Svo er verið að láta hann heyra það uppi í stúku. Hann sussar á þá eins og hetjurnar í ensku úrvalsdeildinni gera í hverri viku og það er ekkert gert í því. En núna í Svíþjóð er það allt í einu bannað.“

„Það er svo mikið í húfi og það er óþolandi að einhver einn gæi frá Moldavíu geti haft svona mikil áhrif,“ segir Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi Reykjavík.

Seinni leikur liðanna fer fram í Víkinni á þriðjudag.