„Þetta er auðvitað alveg ömurlegt og mjög erfitt að taka þessu. Það hefur margt flogið í gegnum hausinn á mér síðustu daga en ég er staðráðinn í að fara í gegnum endurhæfinguna aftur og mæta sterkari inn á handboltavöllinn á næsta tímabili," segir Gestur Ólafur Ingvarsson leikmaður Aftureldingar í samtali við Fréttablaðið en hann sleit krossband í annað skipti á skömmum tíma í leik með liðinu gegn FH í síðustu umferð Olísdeildarinnar í handbolta karla.

Gestur Ólafur var kominn á gott skrið þegar hann varð fyrir áfallinu en hann hafði skorað ellefu mörk í fyrstu fjórum leikjum Aftureldingar í Olísdeildinni en liðið hefur sex stig eftir fjóra leiki. Hann var nýkominn inn á völlinn á nýjan leik eftir að hafa slitið krossband fyrir rúmu ári síðan. Hann segist ekki hafa verið í neinum vandræðum áður með hnéð áður en þessi meiðsli litu dagsins ljós.

„Ég hafði ekki lent í neinum slæmum hnémeiðslum áður en ég sleit í fyrra skiptið. Þetta gerðist á annan hátt í seinna skiptið en mig grunaði það strax að ég væri búinn að slíta aftur þegar ég lenti í þessu. Nú þekki ég ferlið hvað endurhæfinguna varðar og það er ekkert annað að gera en að fara jákvæður inn í ferlið aftur," segir skyttan öfluga sem fer í aðgerð vegna meiðslanna í lok október.

„Strax í kjölfar þess að þetta gerist hvarflaði það alveg að mér að hætta þessu bara en það kemur ekki til greina í mínum huga. Vonandi er ég bara búinn með minn skammt af meiðslum. Mér finnst allavega sanngjarnt að ég fái að fara í gegnum næsta tímabil meiðslalaus," segir hann um framhaldið hjá sér.

„Það er mjög gott fólk í kringum mig sem gefur allt í að hjálpa mér í gegnum þetta. Án þeirra væri þetta eiginlega ómögulegt og ég met það mikils að fólk sé tilbúið að hjálpa mér jafn mikið og raun ber vitni. Mig langar að þakka þeim sem hafa og munu leggja hönd á plóg í meðhöndluninni," segir Gestur Ólafur fullur þakklætis.

„Ég mun halda áfram að mæta á æfingar og fíflast í liðinu í klefanum í kringum æfingar og leiki. Þá mun ég reyna að framkvæma sem mest af endurhæfingunni í Mosó og vera áfram í kringum strákana í liðinu. Mér finnst mikilvægt að missa ekki tengslin við liðið og ég mun mæta á alla leiki og hvetja liðið áfram," segir Gestur um næstu skref hjá sér.