Ríginn á milli Manchester United og Liverpool þarf vart að kynna fyrir lesendum. Þar sem að Gerrard spilaði um árabil með Liverpool, auk þess sem hann var fyrirliði liðsins, fékk hann fremur óblíðar móttökur á Old Trafford í gærkvöldi er Aston Villa mætti í heimsókn í enska bikarnum.

Um leið og Gerrard steig fæti inn á Old Trafford, mátti heyra mikið baul og þá sér í lagi frá Stretford End stúkunni, þar sem hörðustu stuðningsmenn Manchester United sitja vanalega.

Gerrard gekk meðfram hliðarlínu vallarins en stóðst ekki mátið, sneri sér við og starði í áttina að Stretford End.

Leiknum lauk með 1-0 sigri Manchester United, Scott McTominay skoraði eina mark leiksins, sem tryggði Manchester United þar með sæti í næstu umferð enska bikarsins.

Eftir leik var Gerrard spurður út í andrúmsloftið á Old Trafford. ,,Það var fremur hljótt hérna, ég hef farið á velli þar sem er meiri hávaði.

Gerrard hefur farið ágætlega af stað með Aston Villa en hann tók við liðinu í nóvember á síðasta ári, undir hans stjórn situr Aston Villa í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.