Graeme Murty hefur verið rekinn sem knattspyrnustjóri hjá skoska knattspyrnufélaginu Rangers, en þessar fregnir gefa sögusögnum þess efnis að Steven Gerrard sé í viðræðum við að taka við liðinu byr undid báða vængi. 

Jimmy Nicholl og Jonatan Johansson munu stýra Rangers út leiktíðina, en liðið á þrjá leiki eftir í skosku efstu deildinni í knattspyrnu karla á þessari leiktíð. Rangers er í þriðja sæti deildarinnar með 65 stig, en liðið er 13 stigum á eftir Celtic sem hefur nú þegar tryggt sér skoska meistaratitilinn. 

Celtic tryggði sér einmitt titilinn með glæsilegum 5-0 sigri gegn Rangers í síðustu umferð deildarinnar. Murty sem var á skammtímasamningi út yfirstandandi leiktíð hjá Rangers var látinn taka pokannn sinn hjá félaginu í kjölfar tapsins gegn Celtic. 

Gerrard er við störf sem unglingaþjálfari hjá uppeldisfélagi sínu, Liverpool, þar sem hann lék allan sinn leikmannaferil. Starfið hjá Rangers yrði fyrsta starf Gerrard sem knattspyrnustjóri hjá aðalliði.