Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sex mörk úr jafn mörgum skotum þegar Rhein-Neckar Löwen vann nauman sigur á Barcelona, 35-34, í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Guðjón Valur var markahæstur í liði Löwen gegn sínum gömlu félögum í Barcelona. Hann lék með Katalóníufélaginu á árunum 2014-16 og varð Evrópumeistari með því 2015.

Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Löwen sem var 16-13 yfir í hálfleik. Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Barcelona. Aleix Abello var markahæstur Börsunga með ellefu mörk.

Næsti leikur Löwen í Meistaradeildinni er gegn Kielce. Á meðan mætir Barcelona Veszprém. Aron mætir þar sínum gömlu félögum.