Aðeins nokkrum dögum eftir að Alþjóðahnefaleikasamband áhugamanna setti hnefaleikasamand Úkraínu í bann var ákveðið að leyfa Rússum og Hvít-Rússum að keppa á ný.

Hnefaleikasambandið bannaði um tíma fulltrúum Úkraínu á EM unglinga að keppa undir fána Úkraínu vegna afskipta úkraínskra stjórnvalda en hætti við þau áform í gær.

Degi síðar var tilkynnt að ákveðið hefði verið að veita Rússum og Hvít-Rússum keppnisrétt á ný þar sem stjórnmáladeilur ættu ekki að blandast inn í heim íþrótta.

Hinn rússneski Umar Kremlev gegnir embætti forseta sambandsins eftir umdeildar kosningar í vor þar sem mótframbjóðenda hans var bönnuð þátttaka. Íþróttadómstólinn komst að því að þetta væru ólöglegir stjórnunarhættir og krafðist þess að það yrði kosið á ný en sambandið hefur neitað því.

Alþjóðaólympíunefndin hefur um árabil lýst yfir áhyggjum af stöðu hnefaleikasambandsins og þykir ljóst að hnefaleikar verði ekki með á næstu Ólympíuleikum.