Ferillinn hjá Haller virtist á niðurleið eftir að hann gekk í gegnum erfiða tíma hjá enska úrvalsdeildarliðinu West Ham United á árunum 2019-2021.

Haller gekk til liðs við West Ham frá þýska liðinu Frankfurt og átti erfitt með að fóta sig í Lundúnum. Hann skoraði aðeins 14 mörk í 54 leikjum fyrir félagið og í janúar á þessu ári var hann seldur til hollenska liðsins Ajax.

Hjá Ajax hefur hann blómstrað,varð hollenskur meistari með félaginu á síðasta tímabili og hefur gert frábæra hluti á yfirstandandi tímabili.

Ajax situr í efsta sæti hollensku deildarinnar um þessar mundir með eins stigs forskot og fór auðveldlega í gegnum riðil sinn í Meistaradeild Evrópu, vann alla sína leiki, skoraði 20 mörk og fékk aðeins á sig 5 mörk.

Frá því að Haller gekk til liðs við Ajax hefur hann spilað 44 leiki með liðinu, skorað 32 mörk og gefið 13 stoðsendingar.

Það horfir því allt til betri vegar hjá Fílbeinstrendingnum sem hefur spilað reglulega með landsliði Fílabeinsstrandarinnar undanfarið.