Spjót­kastarinn Ás­dís Hjálms­dóttir er óðum að nálgast fyrri styrk þessa dagana eftir bar­áttu við erfið bak­meiðsli. Það kom í ljós að neðst í mjó­bakinu var sprunga vegna á­lags og þurfti hún því að taka sér hvíld frá æfingum með spjótið síðasta haust. Að­spurð sagðist hún ekki finna fyrir þessum meiðslum í dag þegar Frétta­blaðið sló á þráðinn til hennar.

„Það er erfitt að segja hvort þetta sé búið að ná sér að fullu en ég finn ekki til í bakinu þar sem á­lags­brotið var. Ég er pínu við­kvæm fyrir því að vöðvar í bakinu stífni en þá er líkaminn f ljótur að láta mig vita. Á­lags­brotið hefur ekki verið til ama, ég hef verið að kasta á fullu og ég hef ekki fundið fyrir þessu.“ Hún tók undir að það væri léttir að vand­ræðin væru vonandi að baki. „Það er virki­lega góð til­finning, þetta er búið að ganga betur en ég vonaðist til. Þegar maður er að glíma við svona meiðsli er alltaf von á bak­slagi en það hefur ekki gerst enn­þá.“

Ás­dís er þessa dagana að æfa í Sví­þjóð og undir­búa sig fyrir fyrsta mót ársins í maí. „Að­stæðurnar hérna eru til fyrir­myndar og veðrið er frá­bært,“ sagði hún hlæjandi en hún fór einnig til Suður-Afríku fyrr í vetur til að halda undir­búningnum á­fram.

„Það gekk svaka­lega vel að kasta í Suður-Afríku. Þar kastaði ég í fyrsta sinn með fullri at­rennu aftur. Ég vissi það áður en ég fór að það væri þarna sem ég myndi komast að því hvort þetta væri í lagi eða ekki. Ég var að­eins byrjuð að kasta en við fórum út til að láta á þetta reyna og það gekk eins og í sögu. Auð­vitað fór maður var­lega í fyrstu en við erum að auka hraðann og taka eitt skref í einu. Æfingarnar í apríl hafa gengið mjög vel, þær hafa verið þungar en þegar nær dregur keppni verða þær léttari og snúast meira um gæði kastanna.“

Ás­dís kvaðst vera spennt að byrja að keppa á ný. „Fyrsta mótið er 22. maí í Noregi. Ég er á leiðinni til Portúgals í æfinga­búðir og stoppa stutt á Ís­landi á leiðinni á mótið,“ sagði Ás­dís sem játaði því að hún væri með annað augað á HM í haust. „Það er auð­vitað mark­miðið. Fyrst og fremst vil ég bara geta keppt aftur og ekki fundið til í bakinu en árangurs­lega séð langar mann auð­vitað á HM. Ef ég næ fullri heilsu get ég kastað langt og ég var að ná því í Suður-Afríku þannig að auð­vitað er ég bjart­sýn.“

Ás­dís hefur keppt á síðustu þrennum Ólympíu­leikum „Það er búið að gefa út lág­mörkin og maður er með þau á bak við eyrað en það er verið að breyta kerfinu. Það var sett mjög strangt lág­mark, 64 metrar sem ein­hverjar 10-15 stelpur ná. Svo koma 22 kepp­endur inn af styrk­leika­lista en auð­vitað ef gengur vel væri það draumur að ná 64 metrum í ár. Bæta Ís­lands­metið og vera búin að ná lág­markinu í staðinn fyrir að vera í stressi næsta sumar.“