HM keppnin 1986 er í mestu uppáhaldi hjá mér. Foreldrar mínir gáfu mér vídeóspólu með keppninni svo ég gat horft á hana aftur og aftur. Mitt lið var Argentína, Maradona var minn uppáhaldsleikmaður og hann var frábær í þessari keppni. Ég gat meira að segja fyrirgefið honum að skora mark með hendi guðs á móti Englandi. England er lið sem ég hef líka alltaf haldið með en þarna var mér sama því mér fannst Maradona eins og töframaður með boltann. Í raun var hann aðalmaðurinn, dýrasti leikmaður í heimi og fyrirliði liðsins. Menn létu hann líka finna fyrir sér og í fyrsta leik var hann sparkaður ótal oft niður. En það voru fleiri flottir kappar sem tóku þátt í þessari keppni og einn markaskorari sem var líka í miklu uppáhaldi hjá mér og hann varð markahæstur í keppninni en það var Gary Lineker. Ég var sátt við að fyrst England náði ekki lengra áttu þeir þó markakónginn,“ segir Helena Ólafsdóttir, ein besta knattspyrnukona sem Ísland hefur alið.

Úrslitaleikurinn 1986 var milli Argentínu og Þýskalands. „Argentína vann leikinn 3-2 en Maradona skoraði þó ekki en þarna voru margir kappar að spila sem maður þekkti, eins og Karl-Heinz Rummenigge og Rudi Völler. Mér fannst þetta allt svo geggjað. Við krakkarnir lékum okkur í fótbolta á milli leikja, skiptum í lið og skírðum þau eftir landsliðunum,“ rifjar Helena upp.

Fótbolti óútreiknanlegur

En hvað er það við HM sem er svona spennandi?

„HM er auðvitað risadæmi. Þetta er stærsta fótboltakeppni í heimi og þarna eru bestu leikmenn í heimi. Fótbolti er oft svo óútreiknanlegur og það er bara einhver risasjarmi yfir þessu öllu. Svo er sjónvarpið stútfullt af fótbolta í mánuð og það er auðvitað veisla fyrir fólk eins og mig sem hefur mjög gaman af því að horfa á knattspyrnu. Ég held að þessi keppni 2018 verði alltaf efst í huga manns þar sem Ísland er með í fyrsta sinn. Eiginlega er lygilegt að við séum með á þessu stærsta sviði fótboltans. Það sýnir þó að allt er hægt ef allir leggjast á eitt í einu liði,“ svarar hún.

Þegar Helena er spurð hvaða væntingar hún hafi til íslenska liðsins á HM og hvaða leikmenn hún sé spenntust að sjá kemur í ljós að hún er frekar hófstillt í væntingum til liðsins á þessu móti. „Við erum jú í mjög erfiðum riðli. Það er erfitt að toppa EM 2016 en strákarnir hafa sýnt að þeir geta allt. Ég hef eins og fleiri haft áhyggjur af Gylfa en hann lítur vel út og virðist vera búinn að ná sér. Þá er eftir Aron fyrirliði sem er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur og það skiptir okkur miklu að hann geti spilað alla þrjá leikina í riðlinum. Ef allt smellur förum við upp úr riðlinum og ég vona að það gerist. En ég er pínu hrædd um að við spilum bara þessa þrjá leiki samt. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.“

Geggjað að fylgjast með liðinu

Helena ætlar að sjálfsögðu að fylgjast vel með HM næstu vikurnar og reiknar með að horfa enn meira á fótbolta en vanalega. „Ég horfi mikið á fótbolta þar sem ég vinn við hann þannig að ég mun sjá enn meira en vanalega. Ég næ ekki að sjá alla þá leiki sem mig langar að sjá þar sem ég er stundum með æfingar seinnipartinn á daginn. Ég mun taka þann tíma algjörlega frá þegar íslenska liðið spilar og sjá allt sem því viðkemur. Þetta verður hreinlega geggjað að þeir séu þarna.“

Hvað er helst á döfinni hjá þér næstu mánuði?

„Það er hálfgerð fótboltavertíð hjá mér á sumrin. Ég er þjálfari ÍA í 1. deild kvenna, Inkasso, og svo er ég umsjónarmaður Pepsi-marka kvenna. Ég vinn á veturna í 50% starfi sem kennari við Fjölbrautaskóla Vesturlands og er þar yfir afrekssviði og sú vinna tekur við í haust. Ég útskrifaðist á dögunum sem markþjálfi og stefni á að vinna við það með haustinu. Ég hlakka mikið til og það eru spennandi tímar fram undan.“

Þessi grein birtist í HM blaði Fréttablaðsins, 14.06.2018