Lög­reglan í Notting­hams­hire á Bret­landi hefur hand­tekið mann í tengslum við árás sem Billy Sharp, leik­maður Sheffi­eld United varð fyrir eftir leik Notting­ham For­est og Sheffi­eld United í undan­úr­slita­leik um­spilsins í ensku B-deildinni.

Leikurinn fór alla leið í víta­spyrnu­keppni þar sem að heima­menn í Notting­ham For­est höfðu betur að lokum og það var eftir sjálfa víta­spyrnu­keppnina sem at­vikið átti sér stað.

Þegar ljóst varð að Notting­ham var búið að tryggja sér sæti í úr­slita­leik um­spilsins hlupu stuðnings­menn liðsins í stórum stíl inn á völlinn sjálfan. Billy Sharp stóð niður­lútur á hliðar­línunni eftir von­brigði kvöldsins þegar að stuðnings­maður Notting­ham hleypur hann niður af miklum krafti.

,,Einn hálf­viti á­kvað eyði­leggja það sem var ó­trú­legt kvöld fyrir fót­boltann," segir í yfir­lýsingu sem Billy Sharp gaf frá sér ím­orgun. ,,Til hamingju með sigurinn Notting­ham For­est og gangi ykkur vel í úr­slita­leiknum. Sem fyrrum leik­maður fé­lagsins mun ég ekki láta einn skít­hæl draga úr þeirri virðingu sem ég hef fyrir stuðnings­mönnum For­est. Ég er stoltur af því að vera fyrir­liði Sheffi­eld United, leik­mennirnir gáfu sig alla í leikinn og geta gengið stoltir frá borði. Við reynum aftur, takk fyrir allan stuðninginn."

Skömmu eftir at­vikið fór af stað rann­sókn hjá lög­reglu sem miðaði vel og nú hefur maðurinn verið hand­tekinn. Billy Sharp er fyrrum leik­maður Notting­ham For­est og hans fyrrum fé­lag for­dæmir á­rásina í yfir­lýsingu sem birtist á sam­fé­lags­miðlum.

,,Notting­ham For­est er skelfingu lostið eftir að hafa heyrt að ráðist hafi verið á fyrrum leik­mann okkar Billy Sharp þegar að hann yfir­gaf völlinn. Fé­lagið mun vinna náið með yfir­völdum svo að ein­stak­lingurinn sem stóð fyrir á­rásinni verði látinn svara fyrir gjörðir sínar. Það mun meðal annars fela í sér lífs­tíðar­bann frá leikjum Notting­ham For­est. Fé­lagið vill líka biðja Billy og Sheffi­eld United per­sónu­legrar af­sökunar."

Mynd­band af at­vikinu má sjá hér fyrir neðan: