Þar mætir Moli vopnaður knattspyrnubúnaði og visku sinni og dreifir þeirri gleði sem knattspyrnan á að veita fólki. Moli er Akureyringur í húð og hár og lék um árabil með Þór, auk þess sem hann hefur þjálfað hjá félaginu í mörg ár. Þess má einnig geta að hann á tvo A-landsleiki að baki.

Settar eru upp skemmtilegar og fjölbreyttar fótboltabúðir á hverjum stað, til að efla áhuga iðkenda og styðja við bakið á knattspyrnustarfinu á staðnum. Moli hefur nú þegar farið í 22 heimsóknir víðs vegar um landið en hann fór alls til 35 sveitarfélaga síðasta sumar. Hann ætlar að efna loforð sitt um að heimsækja þessa staði á nýjan leik en áætlað er að verkefnið standi til loka ágústmánaðar í ár. Mola langar að stækka og þróa verkefnið næstu misserin.

„Þetta er náttúrulega fyrst og fremst ótrúlega gaman og gefandi að sjá glampann í augunum á krökkunum á þeim stöðum sem ég hef heimsótt. Það er ánægjulegt að sjá núna í ár meirihluta þeirra andlita sem ég sá í fyrra skjóta upp kollinum aftur að þessu sinni. Markmiðið er bara að vekja gleði og hjálpa til við að minnka kvíða hjá börnunum með knattspyrnuna að vopni ef svo má segja,“ segir Moli í samtali við Fréttablaðið.

Næst á dagskránni hjá Mola er að heimsækja Vestfirðina. Hann stefnir á að fara þangað um miðjan ágúst.

„Fyrirkomulagið er í raun sáraeinfalt þar sem ég set upp svokallaða pönnuvelli. Sem er í raun bara lítill battavöllur og þar er spilað einn á móti einum og það eru allir velkomnir, sama á hvaða aldri fólk er. Uppleggið er að krakkarnir fái sem mest út úr þessu og þau hafa gaman af því að kljást við jafnaldra, vini á öðrum aldri og tækla mömmu, pabba og frænda. Svo set ég líka upp skemmtilegar þrautabrautir,“ segir hann um uppsetninguna á verkefninu.

„Mér finnst mikilvægt að fá börn til þess að stunda hreyfingu og fá þau út úr símanum og tölvunni í smá tíma hið minnsta. Þá held ég smá fyrirlestur um mikilvægi hollrar næringar og svefns. Aðaláherslan er eins og áður segir að vekja gleði í hjörtum barnanna og freista þess að minnka kvíðann hjá þeim Það getur fylgt því mikil pressa að spila fótbolta en ég vil fara í grunninn og minna á að fótbolti á að vera skemmtun,“ segir þessi margreyndi þjálfari.

„Ætli ég hafi ekki keyrt hringinn svona sirka þrisvar sinnum síðasta sumar og þetta stefnir í annað eins sumar. Það er hins vegar klárlega þess virði þegar ég sé gleðina í augum krakkanna og eldmóðinn í þeim sem standa að knattspyrnunni í þessum minni bæjarfélögum. Ég set ekki fyrir mig að keyra frá Akureyri til Patreksfjarðar, sem eru tæpir 600 kílómetrar svo dæmi sé tekið. Það er mikilvægt að sinna grasrótinni vel og ég geri það með glöðu bragði,“ segir Moli um ferðalögin sem fylgja verkefninu.

„Síðasta sumar heimsótti ég 35 sveitarfélög og ég lofaði þeim sem ég hitti að ég ætlaði að koma aftur í sumar. Ég ætla að standa við gefið loforð. Svo væri ég meira en til í að stækka verkefnið og bæta öðrum 35 sveitarfélögum við og hafa verkefnið í gangi allan ársins hring. Það er hins vegar í höndum KSÍ hversu stórt verkefnið verður. Til er ég allavega og ég merki gleði og þakklæti í þeim bæjum sem ég heimsæki,“ segir Þórsarinn um framhaldið.