Lögreglan í Bandaríkjunum hefur gefið út handtökuskipun á hendur DeMarcus Cousins, miðherja Los Angeles Lakers, fyrir hótanir í garð fyrrum kærustu.

Cousins er þekktur fyrir að vera erfiður í viðskiptum við liðsfélaga sína og þjálfara en nú er hann í fyrsta sinn kominn í kast við lögin.

Miðherjinn sem samdi við Lakers í sumar var að gifta sig á dögunum . Þegar barnsmóðir Cousins neitaði að leyfa syni hans að mæta í athöfnina gaf hann til kynna að hún gæti átt von á byssukúlu í hausinn.

Cousins sem hefur fjórum sinnum verið valinn í stjörnulið NBA-deildarinnar sleit krossband á æfingu á dögunum og mun því ekki koma við sögu á tímabilinu sem hefst í október.