Grétar Þór Eyþórsson, fyrrum formaður handknattleiksráðs ÍBV, fer hörðum orðum um svar aðalstjórnar sem voru lagðar til í aðdraganda aðalfunds ÍBV í kvöld.

Aðalstjórn ÍBV sendi frá sér stutta tilkynningu í dag eftir fyrri yfirlýsingu handboltaráðs. Aðalstjórnin staðfesti ósætti um tiltekin mál sem hafi verið óánægja um til margra ára og bætti við að málið yrði tekið fyrir á aðalfundi félagsins í kvöld.

Um leið harmaði aðalstjórnin að málið hefði ratað í fjölmiðla.

Fyrrum handknattleiksráðið er ekki sammála þessu og segir að þau séu að reyna að troða sínu ranglæti í gegn á aðalfundi félagsins í skjóli meirihluta.

„Handknattleiksráð hefur ekki lagst gegn skipan nefndar um hvaða málefni sem en krefst þess að aðallstjórn dragi til baka þessa ákvörðun áður en nefndir eru skipaðar enda augljóslega um ólögmæta og rangláta ákvörðun að ræða. Aðalstjórn hefur ítrekað hafnað þessari beiðni handknattleiksráðs og hyggst nú reyna að troða sínu ranglæti í gegn á aðalfundi félagsins í skjóli þess að fá meirihluta þar.

Það sem liggur hins vegar skýrt fyrir og þarf enga nefnd þar til er að við í fyrrum handknattleiksráði ÍBV Íþróttafélags munum ekki starfa fyrir félagið nema á jafnréttisgrundvelli. Okkar skilaboð til aðalstjórnar eru þau sömu og hafa verið. Dragið ákvörðunina til baka og síðan skulum við setjast niður.“

Yfirlýsing frá fyrrum handknattleiksráði ÍBV:

Þurfum sátt sem byggir á réttlæti

Aðalstjórn ÍBV ÍÞróttafélags sendi frá sér yfirlýsingu um að ósætti ríki hjá handknattleiksráði félagsins um tiltekin mál sem hafa verið til skoðunar til fjölda ára. Hið rétta er að aðalstjórn tók þessa ákvörðun 15. mars sl. á grundvelli greinargerðar framkvæmdastjóra sem hefur verið hrakin að öllu leyti og stóðst enga skoðun og vissi ekki af gildandi reglum í félaginu á sama tíma. Þá hefur þetta mál ekki verið til skoðunar innan félagsins s.s af fulltrúaráði eða hinum almenna félagsmanni sem er rétti vettvangurinn.

Þá ætlar aðalstjórn að leggja fram tillögu að nefnd til úrlausnar þessa ágreinings á aðalfundi. Handknattleiksráð hefur ekki lagst gegn skipan nefndar um hvaða málefni sem en krefst þess að aðallstjórn dragi til baka þessa ákvörðun áður en nefndir eru skipaðar enda augljóslega um ólögmæta og rangláta ákvörðun að ræða. Aðalstjórn hefur ítrekað hafnað þessari beiðni handknattleiksráðs og hyggst nú reyna að troða sínu ranglæti í gegn á aðalfundi félagsins í skjóli þess að fá meirihluta þar.

Það sem liggur hins vegar skýrt fyrir og þarf enga nefnd þar til er að við í fyrrum handknattleiksráði ÍBV Íþróttafélags munum ekki starfa fyrir félagið nema á jafnréttisgrundvelli. Okkar skilaboð til aðalstjórnar eru þau sömu og hafa verið. Dragið ákvörðunina til baka og síðan skulum við setjast niður.

F.h. fyrrum handknattleiksráðs ÍBV Íþróttafélags

Grétar Þór Eyþórsson, fyrrum formaður

Yfirlýsing aðalstjórnar ÍBV

Líkt og yfirlýsing fráfarandi handknattleiksráðs ÍBV sýnir ríkir ósætti hjá handknattleikráði félagsins um tiltekin mál sem hafa verið til skoðunar til fjölda ára. Aðalstjórn hefur unnið að tillögum um breytingar sem snúa að þessum málum og mun á aðalfundi sem fram fer í kvöld, 29.6.2022, leggja fram tillögu til fundarins um skipun nefndar til úrlausnar þess ágreinings sem er til staðar.

Aðalstjórn hefur í góðri trú unnið með og rætt við deildir ÍBV íþróttafélags um þessi mál og harmar því þessa yfirlýsingu handknattleiksráðs. Aðalstjórn hvetur félagsmenn ÍBV íþróttafélags að mæta á aðalfund í kvöld sem fram fer í Týsheimilinu kl.: 20:00.

Þá harmar aðalstjórn einnig að þessi mál hafi ratað í fjölmiðla og lýsir yfir eindregnum vilja til að leysa málin innan félagsins.

Virðingarfyllst Aðalstjórn ÍBV