Þátttakendur á Sambandsleikunum, alþjóðlegrar keppni á milli fullvalda ríkja sem eru fyrrum nýlendur breska heimsveldisins, fá hundrað þúsund smokka eftir að samið var við Durex um að vera unaðsaðili leikanna.

Með því var samið að hundrað þúsund smokkum yrði dreift innan íþróttaþorpsins sem keppendur dvelja í ásamt fræðsluefni um getnaðarvarnir.

Leikarnir fara fram í 22. sinn þetta árið og fara fram í Birmingham í Englandi. Flestar íþróttagreinarnar má einnig finna á Ólympíuleikunum en einnig er keppt í skvassi, krikket, netbolta (e. netball) og nú í fyrsta sinn í rafíþróttum.

Um fimm þúsund iðkendur taka þátt ár hvert í fimmtán íþróttagreinum frá 72 mismunandi þjóðum þar sem Írland, Norður-Írland, Skotland og England senda öll sín lið til leiks í stað þess að keppa fyrir Bretlandseyjar líkt og á Ólympíuleikunum.

Undanfarin ár hafa tugir íþróttamanna nýtt tækifærið eftir að hafa lokið keppni og strokið úr íþróttaþorpinu í von um að geta sest að í viðkomandi landi. Alls sóttu 217 einstaklingar um pólitískt hæli í Ástralíu á síðustu Sambandsleikum.