Kristinn Páll Teitsson
kpt@frettabladid.is
Föstudagur 20. maí 2022
09.05 GMT

„Þetta er enn þá hálf óraunverulegt. Það er búið að nota ýmis orð til að lýsa þessari tilfinningu og það er erfitt að finna eitthvað eitt. Þetta er verkefni sem við erum búin að hafa í huga lengi innan Vals, að hafa viðburð af þessari stærðargráðu á Íslandi innan okkar raða. Þetta var einn stærsti viðburður ársins og skipulagningin gekk vel, til viðbótar við ánægjulega niðurstöðu af okkar hálfu,“ segir Svali H. Björgvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Vals, aðspurður hvernig það hafi verið að sjá Íslandsmeistarabikarinn fara á loft í vikunni.


„Persónulega er ég búinn að samgleðjast svo mörgum í gegnum tíðina sem hafa landað þessum titli að það er hálf óraunverulegt að vera hérna í dag. Við ætlum að njóta þessarar stundar. Það er ekki sjálfgefið að upplifa þessa tilfinningu.“


Valur vann þrettán stiga sigur á Tindastól í oddaleik fyrir framan troðfulla Origo-höll á þriðjudaginn og varð með því Íslandsmeistari í karlaflokki í fyrsta sinn í 39 ár. Þetta var þriðji meistaratitill Vals frá upphafi, sem er nú fimmta sigursælasta félag Íslands ásamt Grindavík. „Ég er enn þá bara hrærður yfir að hafa fengið að taka þátt í því að skrifa þennan kafla í sögu Vals.“

Það var mikið undir í oddaleik Vals og Tindastóls á dögunum
©Torg ehf / Valgardur Gislason

Svali kom inn í lið Vals árið 1983 eftir að Valur varð Íslandsmeistari fyrr um árið og tók meðal annars þátt í síðasta úrslitaleik Vals fyrir þrjátíu árum þegar Valur þurfti að horfa á eftir Íslandsmeistaratitlinum til Keflavíkur.

„Við áttum möguleika á að vinna einvígið 1992 á heimavelli í leik fjögur, 2–1 yfir. Sá leikur hefur setið í mér síðan og næsti leikur í Keflavík svo að þetta var ákveðið sálrænt uppgjör,“ segir Svali léttur. „Ég hélt örugglega að ég væri bara að stýra bingói eftir þrjátíu ár þarna en fegurðin við íþróttir er óvissan. Það er ekki hægt að segja hluti því það er vinna að ná þessum afrekum.“

Aðspurður hvort hann sé með einhvern tímapunkt sem marki kaflaskil í stefnu körfuknattleiksdeildar Vals fer Svali sextán ár aftur í tímann.

„Það eru margir tímapunktar í aðdraganda þessa meistaratitils, en 2006 settumst við niður og settum okkur langtímamarkmið. Við byrjuðum á að vinna í yngriflokkastarfinu og að leggja grunn til að byggja ofan á. Markmiðið var ekki að vinna titil strax á næstu 2–3 árum heldur að þetta væri möguleiki um þetta leytið. Þá væri búið að efla innra starfið, fjölga í yngri flokkum, þjálfarateymið orðið skýrt. Það er strategísk vinna að baki, eins og hjá fyrirtækjum, og það er fólk í kringum starfið sem hefur lagt mikla vinnu á sig til að ná þessum áfanga. Við erum þeim þakklát og um leið stolt af að þetta hafi tekist.“

Svali H. Björgvinsson er formaður stjórnar körfuknattleiksdeildar Vals

Aðspurður segist Svali sjálfur ekki vera á samskiptamiðlum en fær að heyra af gagnrýnisröddum þar sem Valsliðið er gagnrýnt fyrir að vera dýrt og að þetta séu aðkeyptir leikmenn.

„Þetta hefur engin áhrif á mig. Á skalanum núll upp í sautján, hvort þetta trufli mig, hefur þetta núll áhrif á mig,“ segir Svali glettinn og heldur áfram: „Ég er eins óvirkur á samfélagsmiðlum og hægt er. Ég hef fengið ábendingar um þetta frá öðrum einstaklingum en í dag er raunveruleikinn sá að íþróttir, þar á meðal körfubolti, eru orðnar að hálf-atvinnumennsku. Ég hef enga skoðun á þeirri fullyrðingu að við séum með dýrasta liðið því ég veit hvað okkar lið kostar, veit að við höfum efni á því og við erum um leið stolt af okkar liði. Við erum með þrjá erlenda leikmenn á meðan mörg lið eru með fjóra og það ætti að gefa til kynna að það sé dýrara í rekstri.“

Svali tekur undir að Valsliðið sé afar heilsteypt á báðum endum vallarins.

Valsliðið er afar vel mannað
©Torg ehf / Valgardur Gislason

„Það er erfitt að setja saman gott lið. Þú veist aldrei hvað þú færð nákvæmlega frá erlendu leikmönnunum en okkur tókst það sem hefur ekki tekist síðustu ár, að púsla saman þessu liði. Þú þarft góðar skyttur, frákastara og varnarmenn sem geta spilað innan skipulags, leikstjórnendur og leiðtoga. Svo þarf að mínu mati einn villtari (e. wildcard) sem við fengum í febrúar með Jacob, sem bætti heilmiklu við liðið án þess að taka neitt af hinum. Þegar við vorum að byggja upp liðið vorum við að hugsa út frá því að smíða lið sem gæti varist og þetta lið hefði ekki unnið með veikan varnarhlekk.“

„Finnur á risastóran þátt í þessu. Finnur hefur reynsluna af því að vinna titla og vera í þessum leikjum sem er ekki auðvelt að þjálfa í menn. Það er ekki hægt að fara inn í sal og æfa þetta því það er ekki hægt að endurspegla stundirnar sem áttu sér stað undir lok leiksins og ákafann sem átti sér stað.“

Það er ástæða fyrir því að Finnur Freyr er jafnan kallaður Finnur sem allt vinnur
©Torg ehf / Valgardur Gislason
Athugasemdir