Ís­lenska lands­liðið í hand­bolta vann í gær­kvöld þægi­legan tíu marka sigur á Græn­höfða­eyjum þegar liðin mættust í fyrstu um­ferð milli­riðla HM. Loka­tölur í Gauta­borg urðu 40–30, Ís­lendingum í vil.

Fyrir leik var ljóst að strákarnir okkar kæmu inn sem mun lík­legri aðilinn, að sama skapi vita leik­menn liðsins að ekkert rými er fyrir frekari mis­stig, líkt og það sem átti sér stað í tapinu gegn Ung­verja­landi í riðla­keppninni, ætli liðið sér upp úr milli­riðlinum.

Guð­jón Guð­munds­son, betur þekktur sem Gaupi, leggur mat sitt á frammi­stöðu ís­lenska lands­liðsins í leiknum gegn Græn­höfða­eyjum sem og fram­haldið á HM í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Frammi­staðan gegn Græn­höfða­eyjum var í sjálfu sér við­unandi. Mér fannst varnar­leikurinn hins vegar ekki sann­færandi og þar vantar tals­vert mikið upp á hjá okkur. Við höfum á­kveðin ein­stak­lings­gæði í okkar liði, gæði sem hafa ekki náð að skína í gegn á þessu heims­meistara­móti.“

Lykil­menn ekki heilir heilsu

Hann hefur á­hyggjur af lykil­mönnum ís­lenska lands­liðsins.

„Það er ljóst að margir af okkar lykil­mönnum eru ekki alveg heilir heilsu. Aron Pálmars­son hefur engan veginn náð þeim takti sem ég var að vonast eftir, hann á mikið inni. Gísli Þor­geir sömu­leiðis, hann er ekki á sama stað og hann var á síðasta Evrópu­móti og hefur verið með Mag­deburg í vetur.

Að því sögðu er ljóst að fram undan er gríðar­lega erfiður leikur gegn Svíum, sem ég spáði heims­meistara­titlinum fyrir mót. Ég held að ís­lenska liðið þurfi að eiga al­gjöran topp­leik ætli liðið sér að leggja heima­menn að velli í Gauta­borg fyrir framan þrettán þúsund á­horf­endur.

Þar þarf fyrst og síðast vörn og mark­varsla að vera í al­gjörum toppi. Þú þarft í það minnsta fjöru­tíu prósent mark­vörslu til þess að eiga mögu­leika gegn Svíum, þá þarftu líka að geta spilað al­vöru vörn. Það finnst mér við ekki hafa gert á þessu móti. Það örlaði svo­lítið á varnar­leiknum í fyrsta leik gegn Portúgal en í öðrum leikjum hefur varnar­leiknum verið á­bóta­vant.“

Eitt­hvað sem vantar

Guð­mundur Guð­munds­son, lands­liðs­þjálfari Ís­lands, var dug­legur að nefna það fyrir mót að aðal­á­skorun liðsins væri að ná saman varnar­leik sínum. Kemur það þér á ó­vart hversu erfið­lega hefur gengið að ná varnar­leiknum upp?

„Já, það kemur mér á ó­vart, ein­fald­lega vegna þess að á síðasta stór­móti var varnar­leikurinn í mjög góðu standi. Varnar­lína okkar þá var að spila frá­bær­lega, leik­menn eins og Ýmir Örn Gísla­son sem hefur ekki geislað eins mikið af á þessu móti.

Mér finnst út­geislunin í liðinu ekki nægi­lega góð, það er eitt­hvað sem vantar. Kann að vera að menn eigi eftir að galdra það fram en fyrir mót fannst mér full­mikið í það lagt að segja að við værum með lið sem ætti að vinna til verð­launa á HM.

Ég held að það sé langur vegur frá. Eins og staðan er í dag þá erum við með lið sem er á bilinu sjötta til tíunda sæti í heiminum, sem er býsna gott. Þetta er lið sem getur náð mjög langt, lið sem getur náð í verð­laun en enn sem komið er í mótinu hefur liðið ekki sýnt okkur það.“

Fyrir­sjáan­legt upp­legg

Þá finnst Gaupa það stinga í augu að skortur sé á fjöl­breytni í upp­leggi ís­lenska liðsins í leikjum sínum. Plan A sé til staðar en ekkert bóli á plani B og C.

„Þetta segi ég sér­stak­lega hvað varðar varnar­leikinn, við eigum erfitt með að bregðast við þar. Eins og leikurinn spilaðist á móti Ung­verjum þá vorum við með gjörunninn leik í höndunum en köstuðum því frá okkur, auð­vitað hljóta að vera ein­hverjar á­stæður fyrir því.

Við vorum bara ekki með, í þeim leik, plan B. Við vorum með plan A sem var næstum því búið að ganga upp en það gekk ekki upp. Það þýðir ekkert að segja ef og hefði, þetta liggur al­gjör­lega fyrir og í augum uppi.“

Það er skammt stórra högga á milli. Á morgun tekur við stærsta á­skorun Ís­lands, til þessa, á heims­meistara­mótinu. Leikur gegn heima­mönnum í sænska lands­liðinu.

Hefur þú trú á ís­lenskum sigri gegn Sví­þjóð?

„Ég hef alltaf trú á ís­lenskum sigri, alveg sama hvað gengur á. Ef ís­lenska liðið nær að galdra fram svipaðan og sama leik og liðið sýndi á Evrópu­meistara­mótinu á síðasta ári, þá er mögu­leiki á að vinna Svía.

En Svíar eru hins vegar með frá­bært lið, frá­bæra mark­menn, spila frá­bæra vörn og eru í dag með eina bestu úti­línu heims og horna­menn á heims­mæli­kvarða.“