Handboltasérfræðingurinn Guðjón Guðmundsson, Gaupi, gagnrýnir landsliðsþjálfarann Guðmund Guðmundsson fyrir viðbrögð við spurningum íþróttafréttakonu RÚV eftir sigur Íslands á Brasilíu í gær.

Liðin mættust á Heimsmeistaramótinu í gær og vann Ísland 41-37 sigur eftir að hafa verið undir, 22-18, í hálfleik.

Úrslitin duga Strákunum okkar ekki í 8-liða úrslit mótsins.

Í viðtali eftir leik reiddist Guðmundur nokkuð er hann var spurður út í „plan B“ í varnarleik íslenska liðsins og hvort það vantaði ekki.

„Hvað heldurðu að þetta sé eiginlega?“ spurði pirraður Guðmundur á móti. Viðtalið og viðbrögð hans má sjá hér.

Gaupi tjáði sig um þetta í Bítinu á Bylgjunni.

„Hann brást mjög illur við í þessu viðtali. Ég verð að segja alveg eins og er að fyrir landsliðsþjálfara Íslands finnst mér það ekki boðlegt. Menn verða jú að halda haus, sama hvort það gengur vel eða illa. Þú getur ekki bara ætlast til að fá þægilegar spurningar ef það gengur illa, og að þetta sé svolítið eftir þínu höfði. Mér fannst svörin við Helgu, sem tók mjög gott viðtal og spurði bara eðlilegra spurninga, ekki nægilega góð.“