Spænski kylfingurinn Sergio Garcia eignaðist fyrsta barn sitt í gær en hjónin ákváðu að nefna soninn Azalea sem er einmitt sama nafn og á 13. holunni á Augusta-vellinum sem Masters-mótið fer fram á.

Garcia vann loksins sinn fyrsta risatitil í golfi á síðasta ári þegar honum tókst að sigra á Masters-mótinu. Var það 74. risamótið sem hann tók þátt í en hann hafði lent í 2. sæti á öllum mótunum nema Masters, þar var besti árangur hans 4. sætið.

Garcia hefur tvívegis sagt frá því í viðtölum að honum líki illa við 13. holuna en á síðasta ári var það 13. holan sem átti stóran þátt í fyrsta risatitlinum. Náði hann að bjarga pari eftir skelfilegt upphafshögg en það gaf honum sjálfstraust til að klára mótið.

Garcia tók við spurningum fjölmiðlamanna af spítalanum á þriðjudaginn en hann verður meðal þátttakenda á Masters-mótinu eftir þrjár vikur og gerir þar atlögu að því að verja titilinn sinn.