Það var erfitt fyrir Formúlu 1 áhugafólk að samgleðjast ekki með Spánverjanum Fernando Alonso, ökumanni Aston Martin í gær er hann tryggði sér 3. sæti í Barein kappakstrinum sem var jafnframt fyrsti kappakstur tímabilsins 2023.
Alonso er meðal bestu ökumanna Formúlu 1 frá upphafi, tvöfaldur heimsmeistari með Renault á sínum tíma og nú hefur hann í 99 skipti stigið á verðlaunapall.
Bíll Aston Martin virðist afar samkeppnishæfur á yfirstandandi tímabili og skákaði meðal annars Ferrari og Mercedes um nýliðna helgi.
Minnstu munaði þó að illa hefði geta farið fyrir liðið í upphafi keppni gærdagsins þegar að Lance Stroll, liðsfélagi Alonso fór af miklum krafti á bíl sínum í hlið bíls Alonso.
Allt kom þó fyrir ekki, Aston Martin bíllinn stóð af sér höggið og í kjölfarið minnti Alonso á sig, sýndi snilldartakta.
Driver of the day goes to Fernando Alonso with this beautiful overtake at the #BahrainGP #F12023 #f1 (@SkySportsF1) pic.twitter.com/evLryGbPr6
— F1 fans (@F1_React) March 5, 2023
Um var að ræða fyrstu keppni Alonso fyrir Aston Martin en hann gekk til liðs við liðið frá Alpine eftir síðasta tímabil.
„Þetta er fullkomin byrjun á þessu verkefni, við bjuggumst ekki við að vera svona samkeppnishæfir. Ég held að markmið liðsins fyrir árið 2023 hafi verið að vera þarna í miðjumoðinu, kannski vera fremstir þar og nálgast svo efstu þrjú liðin.
Janfvel sæti á verðlaunapalli var ekki á radarnum fyrir þetta tímabil. Hins vegar staðan sú í dag að við vorum með næst besta bílinn hér í Barein, yfir alla helgina, rétt á eftir Red Bull. Það kemur á óvart en við erum yfir okkar stolt af þessum árangri.“

Of snemmt sé þó að segja til um það hvort liðið þurfi að setja markið hærra fyrir restina af tímabilinu.
„Við skulum sjá til. Ég upplifði þessa sömu tilfiningu í prófunum fyrir tímabilið, eins og þetta væri of gott til þess að vera satt og maður býst alltaf við því að manni verði hrint aftur á bak. En þetta er farið að verða raunverulegt, geta bílsins.“