Það sem kannski fáir vita er að Arnór Ingvi er lunkinn rafíþróttamaður og situr hann í stjórn rafíþróttadeildar KR sem sett var á laggirnar í haust.

„Ég hef spilað Counter Strike frá því að ég var unglingur og er bara nokkuð öflugur í þeim leik. Félagi minn, Þórir Viðarsson, bað mig svo um að hjálpa sér við að halda úti rafíþróttadeild KR og það var bara meira en sjálfsagt. Ég er nú kannski ekki sá virkasti í stjórninni en ég reyni að hjálpa til þegar ég get. Ég spila reglulega og það er gaman að geta hjálpað til við að koma þessu af stað hjá KR,“ segir Arnór Ingvi um tildrög þess að hann varð stjórnarmaður í rafíþróttadeild KR.

„Þetta er risastór íþrótt á heimsvísu og til að mynda í Svíþjóð er þetta mjög vinsælt. Það var haldið mót í Malmö um daginn sem trekkti mikið að og það var glæsileg umgjörð í kringum það mót. Það er mjög gaman að sjá að íslensk félög eru að taka við sér og skilgreina tölvuleiki sem rafíþrótt. Það eru mjög margir sem eru að spila þennan leik á Íslandi og gott að félögin séu til í að hýsa og aðstoða við utanumhald á þessari íþrótt,“ segir hann enn fremur.

Hvað varðar knattspyrnuna, sem er Arnóri Ingva auðvitað efst í huga þessa stundina, segir hann eftirfarandi um komandi landsleik og baráttuna með Malmö: „Við erum að fara að mæta mjög sterku liði og við verðum að spila okkar besta leik til þess að ná í stig. Við höfum gert það áður hérna á Laugardalsvellinum og ef að við náum upp okkar skipulagi hef ég fulla trú á að við nælum í stig,“ segir Arnór um leikinn gegn Frökkum sem fram fer á föstudagskvöldið kemur.

„Hjá Malmö er ég í jafnri og skemmtilegri toppbaráttu. Djur­gården tapaði stigum um síðustu helgi og þar af leiðandi erum við með hlutina í okkar höndum sem er jákvætt. Malmö er þannig lið að það stefnir alltaf að því að vera sænskur meistari og svo er stefnan sett á að komast upp úr riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Þar eru tveir lykilleikir fram undan við Lugano þar sem við verðum að ná í stig,“ segir kantmaðurinn um stöðu mála mála hjá félagsliði sínu.