Meginkjarni Hamarsliðsins, sem leikur í annarri deild kvenna í fótbolta, eru heimakonur úr Hveragerði, leikmenn með tengingar í bæinn og svo leikmenn sem koma frá bæjunum í kringum Hveragerði.

Íris Sverrisdóttir, sem leikið hafði með Selfossi allan sinn feril, söðlaði um árið 2019 og lék með Hvergerðingum síðasta sumar. Íris segir frábært að lið eins og Hamar hafi orðið til og mikill kraftur sé í starfi félagsins.

„Það hafði verið í umræðunni að búa til vettvang fyrir leikmenn af Suðurlandi sem vilja spila fótbolta en hafa ekki tíma eða áhuga á að gera það á afreksstigi. Eftir að hafa pælt í þessu í þónokkurn tíma tók fyrirliðinn okkar, Dagný Rún Gísladóttir, af skarið og hóaði saman nokkum stelpum sem hún vissi að hefðu áhuga á þessu.

Við höfðum samband við Hamar og það var mjög vel tekið í þetta og stuðningurinn frá félaginu og bæjarfélaginu hefur verið frábær. Umgjörðin í kringum liðið er til fyrirmyndar og við erum að æfa við toppaðstæður. Þá er gott fólk í kringum okkur sem vill allt fyrir okkur gera,“ segir Íris um tilurð þess að liðið var sett á laggirnar.

Tilvalið lið fyrir leikmen eins og mig

„Ég hafði sjálf æft upp alla yngri flokka og spilað í meistaraflokki með Selfossi og var bara mjög ánægð þar. Svo flutti ég í bæinn og fór í mastersnám í sálfræði og tók smá pásu frá fótboltanum.

Áhuginn var samt ennþá til staðar en bara á öðrum forsendum en voru í gangi hjá Selfossi. Ég hafði ekki tíma til þess að spila á afreksstigi, en lið eins og Hamar var tilvalið fyrir mig,“ segir hún enn fremur.

„Það er í raun galið að svona lið hafi ekki verið stofnað fyrr og það sést kannski best á því að leikmannahópurinn telur í kringum 40 leikmenn á ólíkum stað í lífinu, hvað eftirspurnin eftir þessu var mikil.Þarna eru ungar og efnilegar stelpur, leikmenn á aldur við mig sem hafa hætt tímabundið og svo allt upp í konur sem eru búnar að stofna fjölskyldu.

Umræðan í klefanum getur verið mjög fjörug og rætt um mjög ólíka hluti þar. Þarna eru stelpur sem gætu verið að spila í efri deildum og gætu náð langt. Mig langar að nefna sem dæmi Brynhildi Sif Viktorsdóttur, sem er spennandi leikmaður,“ segir Íris, sem er 27 ára.

„Það var erfitt að þurfa að hætta að fara í fótbolta rétt eftir að það var búið að ráða nýjan þjálfara. Þetta hefur andlega erfitt að komast ekki á fótboltaæfingar með hópnum. Við höfum verið duglegar að fara út að hlaupa og æfa eins og við máttum á hverjum tíma.

Það sýnir hversu mikil alvara okkur er og hversu mikill karakter er í hópnum að við höfum komist í gegnum þetta mótlæti og haldið áfram," segir hún

Indverskur landsliðsmarkvörður í markinu í sumar

Á dögunum samdi Hamar svo við indverska landsliðsmarkvörðinn Aditi Chauhan um að leika með liðinu í sumar. Aditi, sem er reynslumikill markmaður, varð indverskur meistari með Gokulam Kerala FC á síðustu leiktíð.

Aditi verður önnur indverska knattspyrnukonan til þess að gera atvinnumannasamning við evrópskt félag. Aditi lék með West Ham United í tvö ár áður en hún snéri aftur í heimahagana.

„Ég fékk fyrirspurn frá umboðsmanni um hvort Hamar vantaði markmann og eins og gengur og gerist í þessum fótboltabransa þá þarf maður að kanna það hvort leikmaðurinn sé virkilega jafn góður og myndböndin sem send eru segja til um. Ég horfði á hana spila tvo landsleiki og sá það strax að þarna var bæði frábær markmaður og mikill karakter á ferð,“ segir Hermann Kristinn, um nýjasta liðsmann sinn.

„Þetta er mikill fengur fyrir okkar lið að fá jafn reynslumikinn markmann og þarna um ræðir. Hún mun bæði nýtast okkur vel innan vallar og ekki síst hvað það varðar að miðla af reynslu sinni til þeirra markmanna sem eru fyrir í hópnum og yngri leikmanna í félaginu yfir höfuð. Við erum mjög spennt fyrir komu hennar,“ segir þjálfarinn þar að auki um Aditi.