KA var eitt af liðum sumarsins í Pepsi-Max deild karla. Liðið kom mörgum á óvart og voru nálægt því að tryggja sér sæti í Evrópukeppni á næsta tímabili. Óheppni og klaufaskapur komu hins vegar í veg fyrir það.

,,Þetta var að mörgu leyti mjög gott sumar en á sama tíma gríðarlegt svekkelsi að ná ekki Evrópusætinu. Við vorum nálægt því og sjálfum okkur verstir í þeim efnum," sagði Arnar í þættinum 433.is. Hann trúir því hins vegar að árangur síðasta tímabils efli trúnna í leikmannahópnum.

,,Ég held að menn trúi því í klefanum núna að við höfum getu til að keppa þarna uppi. Það var markmið okkar að keppa um þessa tvo titla sem í boði voru sem og Evrópusæti þó svo að við höfum ekki gefið það út opinberlega. Því miður gekk það ekki eftir."

Það er eitt af einkennum KA-liðsins að erfitt er að brjóta liðið á bak aftur. KA fékk á sig næst fæst mörk í Pepsi-Max deildinni í sumar en Arnar segir liðið ekki einblína eins mikið á varnarleikinn á æfingum líkt og margir halda.

,,Ég hef reynt að vera samkvæmur sjálfum mér í því sem ég er að gera en svo er maður alltaf að þróast sem þjálfari, maður er alltaf að læra og taka upp nýja hluti. Það hefur mikið verið talað um varnarleik þegar mitt nafn poppar upp í umræðunni, við fáum lítið af mörkum á okkur. Raunin er hins vegar sú að mitt lið er ekki að einblína á það per sei, við erum miklu meira í því að æfa ákveðið uppspil, hvernig við viljum halda bolta og æfa pressu."

Arnar Grétarsson
Mynd: Skjáskot

En hvernig þjálfari er Arnar Grétarsson?

,,Ég er mikill rútínukall og geri mikið af sömu hlutunum aftur og aftur. Svo er það náttúrulega þannig að þegar að þú ert búinn að vera í einhvern ákveðinn tíma þá fer að koma ákveðinn bragur á það sem þú ert að gera og eftir því sem menn þekkja betur inn á það sem þú ert að leggja upp með þá gerirðu ráð fyrir því að þú ættir að vera betri. Mér fannst það skína í gegn hjá liðinu í fyrra, við vorum að spila fínan fótbolta og halda boltanum vel á móti þessum svokölluðum betri liðum."

Hrópandi aðstöðuleysi KA

,,Það sem er ekki að hjálpa KA er æfingaaðstaðan sem þarf að vera betri ef við ætlum að bera okkur saman við lið á borð við Víking R. og Breiðablik. Þessi lið sem eru með topp aðstöðu og geta æft á sínum keppnisvelli nánast allt árið um kring, það er bara erfitt að keppa við það með okkar aðstöðu," segir Arnar Grétarsson, þjálfari KA.

KA-liðið hóf tímabilið með því spila fyrstu heimaleiki sína á gervigrasvelli á Dalvík þar sem að heimavöllur liðsins var ekki klár.

,,Ég held að við höfum spilað fyrsta leik á Greifavellinum í kringum 20. júlí, þá erum við varla búnir að æfa á vellinum. Við erum lið sem spilar á grasvelli en erum samt ekki með æfingasvæði til að æfa á. Æfinga aðstaðan hjá KA er lítill grasbali við hliðina á Greifavellinum sem er ekki sléttur en samt langbesta æfingasvæðið okkar."

Arnar segir þetta grátlegt og mjög súrt fyrir iðkendur félagsins sem eigi betra skilið.

,,Ég veit að KA fólk er að berjast fyrir því að reyna fá nýtt svæði í gegn. Félagið er með eitt stærsta mót yngri flokka, N1 mótið, sem dregur að sér fjölda fólks í bæinn og afleiddar tekjur af mótinu eru gígantískar. Framboðið af öðrum mótum fer sístækkandi og ef aðstaðan er ekki betri en þetta þá veit maður ekki hvað gerist.

,,Manni finnst það mjög súrt að þessir yfir 700 iðkendur hjá KA þurfi að búa við þessa aðstöðu sem er ekki boðleg. Þetta er stórt bæjarfélag og mér finnst það sorglegt hvað bæjaryfirvöld eru að draga lappirnar fram og til baka í þessu máli vegna þess að við búum til dæmis við allt aðrar aðstæður á veturna fyrir norðan heldur en hér á höfuðborgarsvæðinu," segir Arnar Grétarsson, þjálfari KA.

Ákveðnar forsenda fyrir áframhaldandi samstarfi

Arnari var sagt að aðstaða félagsins myndi batna og að líkur væru á því að nýr völlur yrði klár fyrir næsta tímabil en ekkert hefur gerst. ,,Fyrir lok síðasta tímabils voru sagðar 99,9% líkur á því að við myndum fá nýjan völl á næsta ári en það er ekki byrjað að grafa. Ég er gríðarlega ósáttur við þetta. Ég er mjög metnaðarfullur og vill ná árangri, ég tel mig vera með þannig lið á Akureyri að við getum náð árangri en forsendan til þess að taka næsta skref er að fá betri aðstöðu."

Sævar Geir/KA.is

Arnar segir það í raun hafa verið forsenda fyrir áframhaldandi samstarfi síns og KA að aðstaðan myndi batna. ,,Við getum alveg talað hreina íslensku í þeim efnum. Auðvitað vill maður halda þessu verkefni því mér finnst það spennandi og gaman, ég er með flottan hóp í höndunum. Ég held enn í vonina varðandi þessa uppbyggingu á aðstöðunni, auðvitað er það samt sem áður þannig að því lengur sem að tíminn líður, því minni líkur eru á að það verði kominn nýr völlur fyrir næsta tímabil. Sem er sorglegt."

Hægt er að sjá viðtalið við Arnar Grétarsson, þjálfara KA, í þættinum 433.is hér fyrir neðan: