Danski miðvörðurinn Andreas Christensen kaus að gefa ekki kost á sér í úrslitaleik enska bikarsins um helgina en hann er að renna út á samningi hjá Chelsea og er búinn að semja við Barcelona.

Samkvæmt heimildum BBC átti Daninn að byrja leikinn en hann var óvænt ekki á skýrslu hjá Tomas Tuchel, þjálfara Chelsea.

Christensen hefur verið á mála hjá Chelsea í tíu ár eftir að hafa komið til félagsins sem unglingur frá Bröndby en er á förum í sumar þegar samningur hans rennur sitt skeið.

Miðvörðurinn hefur komið við sögu í 32 leikjum það sem af er tímabils en Börsungar nýttu sér að Chelsea gat ekki samið við leikmenn sína á dögunum og samdi við hinn 26 ára gamla Christensen.