Aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Novak Djokovic var vísað úr landi í Ástralíu vegna brota á sóttvarnarreglum gaf íþróttamálaráðherra Frakklands til kynna reglur sem gætu komið í veg fyrir þátttöku Djokovic á næsta risamóti.

Djokovic var vísað úr landi í Ástralíu eftir að hafa framvísað ófullnægjandi gögnum sem sýndu fram á að hann fengi undanþágu frá bólusetningarkröfu. Hann mun því ekki verja titilinn á Opna ástralska meistaramótinu.

Serbinn fékk Covid-19 í annað sinn á dögunum en hefur verið gagnrýndur fyrir að fara leynt með smitið og að hafa blandað geði við aðra einstaklinga á sama tíma.

Í nótt tók gildi nýtt regluverk í Frakklandi sem krefst þess að einstaklingar sem ætli sér á fjölmenna viðburði þurfi að vera bólusettir.

Íþróttamálaráðuneyti Frakka staðfesti að það ætti við bæði áhorfendur og þátttakendur og að engin undanþága yrði veitt að svo stöddu. Að lokum bætti ráðuneytið við að staða heimsfaraldursins gæti breyst á næstu vikum.