„Ég held að þetta gæti markað ákveðin kaflaskil í íþróttaheiminum. Þarna er stærsta stjarna Ólympíuleikanna sem stígur þetta skref og hefur bara fengið gríðarlega góðar viðtökur.

Hún hefur notið stuðnings við ákvörðun sína og sýnir að hún er fyrst og fremst manneskja með tilfinningar sem setur heilsu sína í forgang en ekki einhver ofurmanneskja eða vélmenni,“ segir doktor Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði, sem hefur kennt áfanga í íþróttafélagsfræði og íþróttasálfræði við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands, aðspurður hvort ákvörðun Simone Biles um að draga sig úr keppni í liðakeppni í fimleikum á Ólympíuleikunum eigi eftir að fara í sögubækur Ólympíuleikanna.

„Þegar litið verður til baka gæti þetta orðið ein af helstu sögulínum þessara Ólympíuleika. Það er mikil hetjudýrkun í íþróttum og í Bandaríkjunum og það var í raun enginn sem átti roð í hana í umræðunni fyrir Ólympíuleikana.

Yfirleitt eru nokkrar stjörnur sem eru í sviðsljósinu en núna var sviðsljósið helst á henni,“ segir Viðar sem tekur undir að það sé aðdáunarvert að sjá hana hvetja liðsfélaga sína áfram eftir að hafa dregið sig úr leik.

„Það hefur verið stórkostlegt að fylgjast með henni styðja þær af hliðarlínunni. Hún hefur verið þeirra helsti stuðningsmaður þegar það hefði verið auðvelt að fara bara og loka sig af.“

Þegar þetta er skrifað er Biles ekki búin að ákveða hvort hún taki þátt í einstaklingskeppninni í fimleikum sem hefst um helgina en hún gaf ekki kost á sér í liðakeppninni eftir að hafa dregið sig úr keppni í vikunni.

Í fyrstu ríkti óvissa um af hverju Biles hefði dregið sig úr leik en í viðtölum eftir keppnina sagði hún einfaldlega frá því að ákvörðunin hefði verið tekin til að hlúa að andlegri heilsu sinni.

„Ef maður setur þetta í félagslegt samhengi þá er gríðarlega margt utanaðkomandi sem hefur áhrif á afreksíþróttafólk á þessu stigi. Íslendingar sem koma aftur heim til Íslands eftir að hafa farið ungir að árum út hafa talað um pressuna á að standast væntingar sem eru gerðar til þeirra en þetta er margfalt stærra.

Þetta er tækifæri sem fólk fær kannski aðeins einu sinni á lífsleiðinni en um leið þurfa þessir einstaklingar að sinna alls konar skyldum utan vallar við fjölmiðla, styrktaraðila, fjölskyldur ásamt því að bera væntingar þjóðar og heimsbyggðarinnar í hennar tilviki.

Í aðdraganda Ólympíuleikanna byggist þessi víðtæka pressa upp því hún er að mörgu leyti andlit Bandaríkjanna sem ætlar sér að vinna flest gullverðlaun á Ólympíuleikunum. Allt þetta er streituvaldandi og kannski eitthvað sem hægt er að skoða.“

Biles er önnur íþróttakonan til að greina frá andlegri vanlíðan sinni á stuttum tíma en Naomi Osaka, ein skærasta stjarna tennisheimsins, dró sig úr Opna franska meistaramótinu fyrr í sumar eftir að hafa lent í útistöðum við mótshaldara vegna fjölmiðlaskyldu.

„Það er frábært að sjá þær tvær stíga fram og greina frá eigin vandamálum. Það hafa alltaf verið fordómar fyrir geðrænum vandamálum í samfélaginu og sérstaklega í íþróttum þar sem slík vandamál eru talin sem veikleikamerki og fólk hefur fyrir vikið farið í felur með þetta.

Þess vegna er mjög mikilvægt að þær séu að stíga fram og þetta gæti orðið upphafið að bylgju enda eru þær að sýna að á bak við hetjurnar sé venjulegt fólk sem getur glímt við ýmis vandræði þrátt fyrir að það sé stórbrotið í íþróttum.“

Biles hafði orð á því að hausinn væri ekki á réttum stað sem eykur meiðslahættuna, sérstaklega í íþrótt eins og fimleikum.

„Fimleikafólk gerir ótrúlega hluti í keppni sem geta orðið hættulegir ef fókusinn er ekki í lagi. Það er kannski ástæðan fyrir því að hún stígur fram en ekki einhver einstaklingur í íþrótt þar sem hægt er að bíta á jaxlinn.“