Andreas Christensen og Franck Kessie, nýir leikmenn Barcelona, gætu farið frítt frá katalónska stórveldinu á næstunni, nái félagið ekki að skrá þá til leiks áður en La Liga, spænska efsta deildin, hefst um helgina.

Börsungar hefja leik gegn Rayo Vallecano á laugardag.

Félagið hefur verið ansi virkt á félagaskiptamarkaðnum í sumar. Robert Lewandowski, Raphinha og Jules Kounde hafa einnig komið til félagsins.

Barcelona á, eins og mikið hefur verið fjallað um, í miklum fjárhagsvandræðum. Félaginu hefur ekki tekist að skrá neinn af sínum nýju leikmönnum. Þá hafa Ousmane Dembele og Sergi Roberto, sem skrifuðu undir nýjan samning við Börsunga í sumar, ekki heldur verið skráðir.

Kessie og Christensen eru í sérstakri stöðu þar sem þeir komu á frjálsri sölu frá félögum sínum, AC Milan og Chelsea, í sumar. Það gerir þeim lagalega séð kleift að yfirgefa Barcelona frítt, takist félaginu ekki að skrá þá fyrir leikinn gegn Vallecano á laugardag. Það er ESPN sem segir frá þessu.

Lewandowski, Raphinha og Kounde voru allir keyptir og hafa því ekki sömu réttindi og Kessie og Christensen.

Þó vonast Barcelona til að geta skráð alla leikmenn fyrir leikinn um helgina. Félagið mun tala við umboðsmenn Kessie og Christensen, til að koma í veg fyrir að þeir nýti sér rétt sinn og ætli sér að koma leikmönnum sínum í burtu frítt, komi að því.